Leghálsskoðun -ekki það skemmtilegasta, en mikilvægt!


Leghálsskoðun er einföld rannsókn en mjög mikilvæg sem heilsuvernd. Því vill Leitarstöð Krabbameinsfélagsins, minna þig á að koma reglulega til leghálsskoðunar. 
 
Hver er tilgangur með leghálsskoðun?
 
Í leghálsslímhúðinni eru frumur sem geta breyst og þróast yfir í krabbamein. Þessar frumubreytingar eru almennt kallaðar forstigsbreytingar og er unnt að greina þær með frumustroki frá leghálsi. Ef breytingar verða er hægt að gípa inn í þá þróun með minni háttar aðgerð og koma þannig í veg fyrir að krabbamein nái að myndast.
 
Hvað veldur frumubreytingum í leghálsi?
 
Algengustu orsakir eru sýkingar af völdum veira sem smitast við samfarir. Mest er áhættan hjá stúlkum, sem byrja mjög ungar að lifa kynlífi, hafa marga rekkjunauta og/eða reykja. Aukin áhætta fylgir frjálsræði beggja kynja í kynlífi. Fleiri þættir virðast þó jafnframt geta haft áhrif svo sem aðrar sýkingar í kynfærum.
 
Láttu þér umhugað um velferð þín og fjölskyldu þinnar. Þú getur minnkað líkurnar á að fá krabbamein og aukið batahorfur með því að fylgja eftirfarandi ráðum:
 
• Notaðu verjur við skyndimök.
 
• Reyktu ekki og forðastu að anda að þér tóbaksreyk.
 
• Stundaðu líkamsrækt, vandaðu fæðuval og neyttu áfengis einungis í hófi.
 
• Verndaðu sjálfa þig og fjölskyldu þína, einkum börn, fyrir sólbruna. Þú getur orðið brún án þess að brenna, ef þú gefur þér tíma til þess. Skoðaðu húðina reglulega og láttu lækni líta á allar breytingar.
 
• Farðu reglulega í í leghálskrabbameinsleit eftir tvítugt og brjóstamyndatöku eftir fertugt.
 
• Mundu eftir að skoða brjóstin þín sjálf mánaðarlega.
 
• Vertu vakandi fyrir breytingum á heilsufari þínu.
 
Heimild; Krabbameinsfélagið
 
Fylgstu með öllu því nýjasta á Facebook!