Vinátta byggð á örfáum sandkornum...


Elsku vinkona/vinur sem lest þennan pistil. Ég bið þig um að íhuga orð mín. Þú þarft ekki einu sinni að vera fræg/ur, eða að hafa unnið til stórafreka, hvað þá notið sérstakrar velgengni í lífinu, þú ert einfaldlega aldrei óhult fyrir hor-ætunum...
 
Guð forði þér frá því að misstíga þig eða teljast til þeirra sem eru álitnir fallegir í víðum skilningi þess orðs; þá koma banhungruðu, gráðugu og vansælu hrægammarnir og éta þig.
 
Eitt er víst; ef þú skiptir einhverju máli, nýtur velgengni eða ert öðruvísi á einhvern hátt, þá er voðinn vís! Þær rífa þig í sig. Hor-æturnar. Ef þú ert viðkvæm sál; verður þér slátrað...
 
Oftast tala þær um þig á lágkúrulegum nótum í gegnum þriðja aðila. Þær reyna hvað þær geta að slíta af þér mannorðið. Mannorðið sem er hverjum og einum hvað allra dýrmætast...
 
Elsku vinkona/vinur; ekki örvænta þótt stundum virðist þér það óvinnandi vegur, bardaginn við nöðrurnar.
 
Eitt máttu vita með vissu: Fallega fólkið sér svo miklu miklu meira en þig grunar. Fallega fólkið sér í gegnum róginn. Fallega fólkið metur þig að verðleikum, fyrir það sem þú ert. Fallega fólkið virðir og metur hvert eitt og einasta líf og allt sem er og lifir...það er fallega fólkið sem skiptir máli.
 
Í návist þinni brosa úlfarnir smeðjulega og hlæja jafnvel holum innihaldslausum hlátri, en taktu eftir; þeir horfa aldrei í augu þín. Mig grunar að þeir þrái vinskap þinn undir hnakkaspikinu. Úlfarnir.
 
Ég veit með vissu að þeir vilja líkjast þér, ásælast hugrekki þitt, dá þor þitt, vilja vera eins og þú. En því miður eru þeir vansælar gungur, stútfullar af öfund. Þeir eru ófullnægðir í öllum skilningi. Hvernig má annað vera?
 
Því miður eru þeir ekki eins og þú.
 
Við mosavaxinn glugga sitja þau yfirleitt; vinkonurnar og vinirnir sem byggja vináttuna á örfáum sandkornum. Þau stinga hvort annað í bakið.
 
Gluggakistan, sem var einu sinni hvít er nú brún og lifandi. Einhverjir furðulegir og sjaldséðir myglusveppir hafa tekið sér bólfestu undir kjaftablaðrinu og fjölga sér ört.
 
Myglusveppirnir í gluggakistunni grenja greddulega. Þeir eru banhungraðir.
 
Hor-æturnar taka sig til og henda í skál, rógi og lygi. Fleygja subbulega saman við góðum slatta af afbrýðisemi. Feitri klípu af mannfyrirlitningu er hent út í skítuga skálina og að lokum er „dashi“ af illkvittni hnoðað saman við.
 
Úr stórri brúnni ljótri kúlu eru mótaðar litlar drullukökur og þeim raðað á plötu. Þegar platan er þéttsetin er henni kastað inn í brennandi heitan og drulluskítugan ofn...
 
Smákökurnar heita einfaldlega: Eitraður viðbjóður.
 
Æturnar horfa hugfangnar á, þegar kökurnar lyfta sér og andrúmsloftið fyllist af ógeðslegri skítafýlu. Hrægammarnir renna á lyktina og fá sér sæti við borðið. Og sleikja út um...
 
Öll eiga þau það sameiginlegt að elska skítafýluna og daunillt bragðið af drullukökunum.
 
Æturnar og gammarnir éta með opin munn og sleikja út um og slefa. Mmmmm, svo gott, svo gott. Þau mettast um stund. En aðeins í örskamma stund áður en þau fara aftur í leit að nýju fórnalambi, baka fleiri kökur. Hor-æturnar og hrægammarnir.
 
Það er allt morandi af þessum „kvikindum“ , sem ég stundum kalla „fúlu stykkin“. En sem betur fer er þetta afbrigði ekki í meirihluta...sem betur fer! Ég er gangandi sönnun þess að fallega fólkið er að ná yfirráðum. Ég persónulega er umkringd englum...
 
Til þín sem skiptir máli; ekki láta bugast. Vertu þú sjálf/ur og undir engum kringumstæðum EKKI gefast upp fyrir nöðrunum. Mig grunar nú samt að horæturnar og hrægammarnir séu í útrýmingarhættu, því það þykir ekki lengur smart að upphefja sjálfan sig á kostnað annarra...
   
Ég fékk þessa vísu að láni frá Hannesi Hafstein. Geymdu hana ofarlega í huga þér, í þínu daglega daðri við lífið. Ég geri það...
 
Taktu ekki níðróginn nærri þér.
Það næsta gömul er saga,
að lakasti gróðurinn ekki það er,
sem ormarnir helst vilja naga.
 
Aðgát skal ávallt höfð í nærveru sálar (og sálarlausra)...ávallt og alltaf.
 
heida@spegill.is