Minningargreinar eru prump - Guð sagði upp áskriftinni af Mogganum...


Þessi pistill birtist fyrst á bleikt.is árið 2011. Talsverðar umræður fóru af stað í kjölfarið og hafði ég vart undan að grípa hvern skítinn á fætur öðrum sem kastað  var í mig á commentakerfum, þá sérstaklega af bland.is.

 

Ég er ennþá sömu skoðunar í dag: Minningargreinar eru prump. 

 

Á fjórum fótum með rassinn upp í loft, hálf undir rúmi teygði ég mig í kassann minn góða sem geymir ýmsar gersemar. Inn á milli meðmælabréfa lá gulnuð úrklippa úr Mogganum. Minningargrein sem ég skrifaði 1997, þegar föðuramma mín lést. Aðeins neðar; önnur til pabba.

 

Aðrar hef ég ekki skrifað og mun ekki gera. Ég nefnilega komst að því fyrir tilviljun að Guð er ekki áskrifandi að Morgunblaðinu og því tilgangurinn lítill sem enginn.

 

Tilgangurinn er annar og svo miklu meiri og dýpri.

 

Í kassanum eru engin ástarbréf, þau fljúga þegar kærleikurinn kulnar. Ég safna ekki drasli og því síður velti ég mér upp úr því sem var, eða því sem aldrei varð. Hef aldrei, ekki einu sinni lent í ástarsorg, á það eftir, tíminn er nægur…hlakka til.

 

Ég las yfir greinina hennar ömmu og lét huganum það eftir að reika óáreittum í algjöru stjórnleysi til fortíðar;

 

Inn á milli hávaxinna steina hafði ég falið mig í brekku, sem í minningunni er á stærð við fjall. Ég sat á þúfu þennan kalda og regnvota vordag með sokkapar í úlpuvasanum. Ég var 12. ára gömul, hafði strokið að heiman.

 

Eftir einhverja klukkutíma og mikla leit fannst ég rennandi blaut, þrútin, köld og háskælandi, reyndar skelfingu lostin. Ég tók ekki í mál að fara aftur heim og var ég keyrð til Siggu ömmu. Hún tók mér opnum örmum og bjó ég hjá henni allt þar til ég fór í mína fyrstu sambúð, 4-5 árum seinna.

 

Hún dekraði mig yfir öll mörk. Varði mig með klóm og kjafti. Aldrei hefur neinn lífs eða liðin verið mér eins góður. Aldrei hefur neinn stutt mig eins og amma gerði. Engin verið eins stoltur af mér og hún var. Enginn hvatt mig eins og hún. Það er staðreynd.

 

Einhverju sinni hafði ég sent hana út í sjoppu eftir appelsíni í gleri, fylltum froskum og bognum bananastöngum, á meðan lá ég undir ilvolgri sæng fyrir framan sjónvarpið.

 

Hópur unglingsstráka voru í sjoppunni þetta kvöld. Þegar einn þeirra galar hátt yfir allt og alla svo amma heyrði; „Djöfull er hún Heiða vinkona hennar Hörpu flott, væri sko alveg til í að ríða henni“… umturnaðist hún í óhemju, öskraði og kýldi loks gaurinn á kjaftinn, fast.

 

Sótrauð í framan strunsaði hún í burtu, eða eins hratt og hægt var, ef mið er tekið af því að hún studdi sig við slitinn tréstaf. Grænköflótt ullarpils sveiflaðist í takt við heimalitað og fjólublátt hárstrý. Með appelsínugul sólgleraugu og fullan poka af froskum og bognum bönunum, tautaði hún;

 

–Svona nokkuð segir enginn um hana Heiðu mína!

 

Ég dauðskammaðist mín fyrir ömmu á unglingsárunum. Ekki lagaði atvikið í sjoppunni ástandið. Amma var kjaftfor og ekkert sérlega „lekker“ pía. Hún reykti tvo pakka af sígarettum á dag og voru hóstaköstin eftir því. Reyndar svo yfirgengileg að hún átti það til að pissa í nær-buxurnar.

 

Við bjuggum tvær saman í vægast sagt lélegu og litlu leiguhúsnæði. Ég reyndi hvað ég gat til að fela skömm mína á henni, sjálfri mér, aðstæðum mínum, hverra manna ég var, fortíðinni og öllum fjandanum öðrum, með því að eyða drjúgum hluta launa hennar úr frystihúsinu í tískufatnað. Var alltaf óaðfinnanleg til fara, allt í stíl.

 

Tískudrós með stórt kraftakýli inn í mér.

 

Árin liðu, ég fór að búa og var amma dugleg að hringja. Reyndar of dugleg fyrir minn smekk og túlkaði ég yfirganginn nánast sem ofstæki, dónaskap og áreiti. Oftar en ekki lét ég strákinn minn eða þáverandi sambýling ljúga því til að ég væri í baði.

 

–Já, já, hún hefur nú alltaf verið svo þrifin hún Heiða mín, biddu hana bara um að hringja þegar hún er búin.

 

Stundum var ég í tvær vikur í baði…

 

Ef „lafðin“ ég svaraði, pirraði ég mig á henni og hreytti stundum út úr mér;

 

-Í guðanna bænum manneskja, hringirðu í mig alla leið til Nýja Sjálands til að hósta inn í heilann á mér…eða?

 

Einn daginn hringdi pabbi, amma var dáin. Tilfinningin var ólýsanleg.

 

–En það var ekkert að henni pabbi, ha? grenjaði ég eins og móðursjúkur, sköllóttur köttur.

 

Hvað vissi ég svo sem um það? Ekki spurði ég hana hvernig hún hefði það. Ég vissi fullvel að amma var einmanna, samt gaf ég henni lítið sem ekkert af tíma mínum. Ef ég gerði það, var ég oftast pirruð. Nema þegar mig vantaði eitthvað, þá var ég ljúf sem lamb. Lét mér í raun fátt um finnast, enda með hausinn fastan í eigin rassgati.

 

Og fyrir það skammast ég mín…

 

Við krufningu kom i ljós að maginn hafði sprungið og einhver innyfli önnur voru fyrir löngu ónýt… á meðan málaði ég á mér varirnar -uppfull af hégóma og sjálfri mér eins og sólin skini á mig eina…

 

Pabba ofsótti ég í framhaldi með feitri fýlu, ásökunum og eitruðum athugasemdum. Kallaði hann rolu, sagði hann ekkert of góðan til að druslast upp í Mogga með minningargrein sem ég hafði sent póstleiðis frá NZ. Ég ætti það svo sannarlega inni hjá honum…o.s.frv.

 

–Gerirðu þér grein fyrir því að ég er búin að missa hana ömmu mína!? Þetta er nú það minnsta sem þú getur gert fyrir mig! öskraði ég eigingjörn og móðursjúk. Loksins drullaðist karl-lufsan af stað og greinin birtist.

 

Í framhaldi fékk ég mikið lof og hól (ásamt „dash-i“ af samúð) fyrir það hversu listavel greinin var skrifuð. Pabbi fékk ekki eitt skitið takk fyrir viðvikið, aðeins önugheit og fyrirlestra um það hversu mikið ég hafði misst, ég átti svo bágt…

 

Nokkrum mánuðum síðar fékk ég annað símtal;

 

Pabbi var dáinn. Hafði látist af slysförum liðlega fimmtugur að aldri. Ég náði varla andanum af sársauka. Sársauka, sorg og skömm.

 

Aftur settist ég niður og skrifaði minningargrein…og fékk lof fyrir ómakið.

 

Þegar ég sat á gólfinu við rúmið mitt í gærkvöld á fortíðartrippinu, varð mér hugsað til þess að þrátt fyrir að hafa verið svona ævintýralega sjálfselsk og sjálfmiðuð þá lærði ég sitthvað „the hard way“. Sem betur fer! Því að síðan þetta var, hafa margir mér nákomnir/dýrmætir/tilfinningalega tengdir látist.

 

Á síðustu tveimur árum; -móðuramma mín, fósturfeður tveir með mánaðar millibili, fyrrverandi tengdamæður, kær vinkona framdi sjálfsmorð á síðasta ári. Tveir vinir mínir…og ekki má gleyma mömmu sem var fyrir löngu týnd inn í þennan furðulega heim sem geðveikin er og fjarlægðist raunveruleikann og lífið, þar til hjartað hennar gafst upp á endanum og hætti að slá...og hún dó.

 

Ykkur að segja þá er mun auðveldara að ganga í gegnum sorgarferlið án samviskubits. Trúið mér; -hef prófað bæði. Sorgin er nógu lamandi vond. Samviskubitið enn verra. Vel skrifuð minningargrein er bara prump í sárið.

 

Mér lærðist eftir andlát pabba og ömmu hversu mikilvægt það er að sýna fólkinu „sínu“ hlýju og tjá væntumþykju sína, gefa ögn af tíma sínum.

 

Ósk mín til þín sem lest þetta er; -ef þú elskar einhvern, segðu honum það og sýndu í verki…

 

…áður en það er of seint.