Étur þú ekki neitt?


Sumt á sér stað og stund, annað engan veginn. Hvorki stund né stað.

 

Mig langar að deila með ykkur smá sögu og um leið sjónarmiði þar sem ég eins og svo margir fleiri eru komnir með upp í kok af útlitspælingum fyrir allan peninginn!

 

Allan!

 

Við vitum jú öll að við erum misjöfn af Guði gerð. Við komum í allskyns útgáfum og erum öll falleg, hver á sinn hátt. Takk Guð segi ég nú bara!  Fögnum fjölbreytileikanum!
 
Ég hef áður skrifað um þetta málefni greinar um að fólki finnist í lagi að benda grönnum konum á að þær séu grannvaxnar, með niðrandi hætti á borð við:
 
-Djöfull er að sjá þig! Þú er svo horuð! Étur þú ekkert manneskja? Fáðu þér rjóma...osfrv.
 
Hinsvegar, ef ég eða önnur grannvaxin kona tækjum upp á því að benda þeim feitvöxnu á tilvalið mataræði til að grennast og myndum pota í bumbu, er ég ansi hrædd um að lítið yrði eftir af okkur….okkur yrði stútað!
 
Undir álagi borða aðrir meira á meðan enn aðrir missa matarlystina. Ekki veit ég hvort er skárra…en ég er ein af þeim sem missi lystina undir álagi. 
 
Mér verður sjaldan svarafátt og allra síst þegar holdarfar mitt og útlit ber á góma...
 
...en þegar við systkinin bárum mömmu til hinstu hvílu, var ákveðið að sameina kistulagningu og jarðaför. Þá gerðist það, ég missti málið...en bara í smá stund. 
 
Ég var varla fugl né beinagarður úr ýsuflaki og síst af öllu var ég að hugsa um tittlingaskít eins og hvernig ég kæmi öðrum fyrir sjónir eða hvernig ég leit út. 
 
Ég var einfaldlega helvíti aum og náði varla andanum vegna þyngsla fyrir brjóstinu. Mér leið einsog það væri verið að rífa úr mér hjartað, satt að segja.  
 
Ég hafði ekki komið niður matarbita í marga daga, enda undangengnir dagar mér hryllilega erfiðir. Alveg frá því lögreglan fór með mig heim til mömmu, þar sem hún hafði fundist látin, ein og yfirgefin á eldhúsgólfinu. Fram til þessa dags, einn erfiðasta dags lífs míns. 
 
 
Allavega... 
 

Við stóðum systkinin í anddyri kirkjunnar og tókum á móti vinum og ættingjum sem færðu okkur kærleiksríkar, hughreystandi og einlægar 

samúðarkveðjur, sem gerði þessa erfiðu stund léttbærari fyrir okkur öll...

 
...nema ein.
 
Það var sú sem galaði einsog rasslaus hæna, hátt og snjallt yfir allt og alla, svo bergmálaði í kirkjunni um leið og hún greip þéttingsfast utan um mig:
 
-Hvað er að sjá þig Heiða Bergþóra! Þú ert bara ekki orðin neitt neitt? Skelfing að horfa upp á þetta! Þú verður að fara að éta eitthvað, þú ert svo hryllilega horuð! 
 
Eftir þögn sem virtist vera heil eilífið svaraði ég:
 
-Já finnst þér það? Sástu mig ekki síðast þegar ég var fimm ára?
 
…en það var einmitt raunin. Síðast þegar við hittumst var ég aðeins 5 ára gömul að leika mér í sandkassa þar sem ég bjó til kastala og mokaði sand ofan í gula fötu á milli þess sem ég boraði í nefið... 
 
Aldrei of oft sagt: Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
 
Ps. þessi kona sem um ræðir var XXXL
 
 
 heida@spegill.is