Hugsar þú til þeirra sem eru látnir á hverjum einasta degi? Nei, auðvitað ekki...


Mér þykir dauðinn ansi magnað fyrirbæri, einsog flestum. Kannski ekkert sérstaklega heillandi en klárlega er dauðinn það eina sem við getum gengið að sem vísu.
Ég sé stundum stöðuuppfærslur á Facebook, sem eru eitthvað á þessa leið:
 
Elsku mamma mín (eða pabbi) lést fyrir 18 árum á þessum degi. Það líður ekki sá dagur að ég hugsa ekki til hennar (hans) ....osfrv. Sem sagt ákaflega fallegar kveðjur sem lýsa sorg, söknuði og eftirsjá.
 
Með þessum hugleiðingum mínum er ég ekki að gera lítið úr þeim.
 
En, sko....hvernig get ég sagt það sem ég er að hugsa án þess að segja það?
 
Æi, ég segi það bara án málalenginga...
 
Er það virkilega tilfellið að við hugsum til þeirra sem hafa fengið sína hinstu hvíld daglega, jafnvel oft á dag? Mörgum mörgum árum seinna? Gleymum við þá ekki að lifa? Lifa í gleði? Njóta lífsins, einsog til er ætlast?
 
Það er ekki fræðilegur möguleiki að vera hamingjusamur, ef við erum sorgmædd.
 
Öll mín nánasta fjölskylda er dáinn. Pabbi, mamma, ömmur og afar. Kær náin vinkona, fyrrum sambýlismaður, fósturfeður.
 
Svo hef ég misst ættingja/ástvini vegna illdeilna og misskilning, og það er í engu skárra, en að missa fólkið sitt yfir móðuna, nema síður sé.
 
Því fylgir gríðarlegur sársauki, tja, allavega í mínu tilfelli. En það er líka sársauki sem dofnar og hverfur  og verður að ljúfri minningu –hér kemur einmitt þessi fallega bæn sterk inn:
 
Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við við það sem ég fæ ekki breytt....osfrv. Svo er það bara búið. 
 
Hugsa ég til þeirra sem eru látnir á hverjum degi?
 
Nei. Auðvitað ekki. Það myndi gjörsamlega drepa mig lifandi!
 
Ég fagna lífinu, en viðurkenni að ég verð aðeins krumpuð í hjartanu þegar ég hugsa til þeirra sem ég hef misst,  á afmælum þeirra, afmælinu mínu, dánardegi þeirra, á jólum, gamlárskvöld og þegar ég er úti að ganga að kvöldlagi undir stjörnubjörtum himni.
 
Þá fá tárin alveg að leka óhindrað og það er í góðu lagi. Tárin hreinsa sálina og allt verður eitthvað svo mikið skýrara. Svo nota ég líka vatnsheldan maskara...þannig að ég er góð.
 
Hvað felst í orðunum; -Blessuð sé minning hennar/hans? Hvíl í friði?
 
Ég gæli við þá hugmynd að þeir sem á undan okkur fóru, séu að undirbúa komu okkar. Ég trúi því að þeir vilji ekkert fremur en að við lifum lífinu hér á jörð til hins ýtrasta, að við ræktum hæfileika okkar og nýtum þá, okkur og öðrum til góðs.
 
Hlæjum eins oft og kostur er. Séum hamingjusöm. Séum meðvituð um að fara vel með þann tíma sem okkur er gefin hér.
 
Ég trúi því að þegar við náum þessu, þá nái þau að hvíla í friði og að þannig blessum við minningu þeirra á óeigingjarnan og sem fallegastan hátt.