Sönn nútímasaga: Heiða, fékk ég fullnægingu?


Þetta var alveg fínt, eða þannig. Aðeins smotterý sem ég vill nefna við þig sérstaklega að lokum. Sem þú getur etv. nýtt þér í framtíðinni. Stundum er betra að halda kjafti og stundum er betra að halda enn fastar kjafti, ...því sumt spyr maður hreinlega ekki um...það er bara þannig.
 
HALTU KJAFTI og hlustaðu á mig for god's fucking sake! 
 
Ég man þegar ég hitti þig fyrst. Fyrir mörgum, mörgum mánuðum og nokkrum árum síðan á fjórðu hæð Perlunnar, yfir kakó í háu glasi með rjómabombu á toppnum. Þar ofan á grófur súkkulaðisandur. Þú hafðir vakið athygli mína.
 
Það voru augun sjáðu til. Brún augu þín kveiktu smá í mér. Bara smá. Ég tók ekki eftir því í fyrstu að þú varst litlaus með öllu. Minntir mig seinna á ljósleiðara. Eða ísskáp. Nefið rautt. Ekkert hár á hausnum. Hvítar augabrúnir og augnhár.
 
Svo opnaðir þú munninn. Og þú lokaðir honum ekki aftur. Mér var sama, það voru augun. Eftir því sem vikurnar liðu, heyrði ég ekki hvað þú sagðir. Í sannleika sagt fannst mér þú ekkert sérlega skemmtilegur. Húmorinn þinn var gjörsamlega glataður. 
 
Þú spurðir aldrei um mína hagi. Veistu; að ég er Þórðardóttir? Dóttir Tóta svarta? Á einn albróður og nokkur hálf? Nei, bara pæling. Af því að þú spurðir aldrei.
 
Elsku karlinn minn: Ég get ekki orða bundist; mig grunar að Guð hafði skilið gleraugun sín eftir heima þegar hann grýtti upp í þig tönnunum. 
 
Þvílíka óreiðu hef ég bara ekki séð í einum kjafti! En augun þín voru dásamlega falleg. Ég týndi mér í þeim. Þessi brúnu fallegu augu... 
 
Ég spurði hvort þú hefðir misst hárið. Hvort þú hefðir rakað það af. Hvort þú værir hárlaus með öllu. Þú vippaðir þér úr af ofan, rogginn og brostir. Stóðst fyrir framan mig og já ...þú varst loðinn. Loðinn á bringunni og líka á bakinu. Ég hló:
 
-Hey, þú ert bara „natural born“ lopapeysa! Íslensk lopapeysa. Og bætti við: SHITTURINN titturinn!
 
 
Þér fannst ég hreint ekkert fyndinn, snerir þér í hring, og sagðir hátt og snjallt:
 
-Nei, ég er sko ekki sköllóttur karlmaður Heiða mín. Ég er ríkur mjög af hárum!
 
Mikið andskoti fannst mér þetta ólekkert. Sko, lopapeysan. Þú hvítur eins og snjóbolti. Svo hvítur að ég sá blóðið renna í æðum þínum.
 
Þú snerir þér við ...og að mér. Og augun. Já, augun. Það sem ég elskaði þessi augu. Synd að augun voru staðsett í hvítu eggi með rauðu kartöflunefi fyrir miðju. Undir íslenskri lopapeysu.
 
Veistu, þau eiga ekki heima þarna. Augun. Það er eitthvað rangt við þetta.
 
Þú vaktir áhuga minn. Líka af því að þú ert húsasmiður. Hef alltaf hrifist af handlögnum mönnum. Mönnum sem kunna að nota hendurnar. Eða mönnum, sem hafa efni á að kaupa sér þjónustu iðnaðarmanna. Ég er orðin hundleið á að bora, negla, mála og laga stíflur í vöskum svo fátt eitt sé nefnt.
 
Ég hreifst svo mjög af þér að mig langaði að vita hvernig væri að elskast með þér. Er ég dóni? Já, ég veit. Af hverju varstu alltaf með opna buxnaklauf? Rennilásinn oftar en ekki sprunginn. Hvað var málið með það? Stórt typpi?
 
Áhugaleysi þitt um mína hagi hentaði mér vel. Fannst fínt að þú varst ekki nærgöngull og lést mig í friði. Mér finnst nefnilega ekkert gaman að tala um sjálfa mig. Enda máttir þú hafa þig allan við að mokað yfir mig trilljón orðum á sekúndu, um sjálfan þig á svo miklum hraða af ég var farin að sjá köflótt og stundum langaði mig að kyrkja þig því mér finnst þögnin svo góð. Vá hvað munaði litlu!
 
Þú sagðir einu sinni við mig:
 
-Heiða, þú ert svo falleg að ég þori ekki að sofa hjá þér. Þori kannski alveg. Held samt að ég geti ekki fengið fullnægingu með þér. Af því þú ert svo falleg.
 
-Vá. Já. Ok...Er því þá ekki öfugt farið? Ég meina... of brátt sáðlát? Spurði ég eins og bjáni.
 
Þú svaraðir engu, ypptir bara öxlum. Horfðir á mig án þess að sjá mig.
 
Þremur mánuðum eftir að við hittumst fyrst, gerðist það. Það var svona „alltílagi“...ekkert meira, ekkert minna. Allt í lagi, er ekki nógu gott. Trúðu mér. Sorry. Óásættanlegt.  
 
Og þegar þú sast á rúmbríkinni og snerir við mig baki, virti ég fyrir mér litasamsetninguna í lifandi lopapeysunni, og þú hvíslaðir:
 
-Heiða, fékk ég fullnægingu?
 
Þá hefðir þú betur haldið kjafti. Þetta var of stór og flókin spurning fyrir mig.
 
 
 
 
 
 
heida@spegill.is