Veitir verslunin ZARA góða þjónustu?


Þjónustan í verslunum og bara almennt á Íslandi hefur hrakað hrikalega sl. ár. Takið eftir, þetta er ekki spurning, þetta er fullyrðing.

 

Flest starfsfólk er illa upplýst um vörur, eru fíldir á svip og sérlega áhugalausir um viðskiptavininn. Segja gjarnan: -ég veit það ekki...oftar en ekki horfinn ofan í snjallsímann sinn ef þeir eru ekki með fjárans símann á titring í rassvasanum. Með tyggjó í munni yppta þeir öxlum og labba í burtu.

 

Og þetta látum við viðgangast. Af hverju? Af því að við eigum fallegustu konur heims, sterkasta karlinn, lesbía varð forsætisráðherra, kona forseti og svo erum við búin að tryggja okkur efsta sætið í að vera feitust á norðulöndum.

 

Ekki er þjónustan nú beint til fyrirmyndar hjá Ríkinu, t.d. hjá Tollstjóra. Maður labbar inn á fund búin að dúndra í sig kvíðastillandi og labbar í burtu eftir erindið í sjálfmorðshugleiðingum og á allt eins von á því að fá byssukúlu í hnakkann.

 

Það er hrein andstyggð að eiga samskipti við suma ríkisstarfsmenn. Og þeir bara komast upp með það að vera þurrir, hrokafullir dónar ár eftir ár. Eða alveg þangað til þeir fá blóðtappa í hausinn og drepast fram á skrifborðin sín...blessuð sé minning þeirra og það allt saman. 

 

Er verið að grínast í mér? Er falin myndavél á svæðinu?

 

Þetta er auðvitað ekki algilt – alls ekki. 

 

Ó-þjónustulund pirrar mig alveg hrikalega. Ég hreinlega GARGA þegar ég hugsa um það. Við erum sveitadurgar í alltof stórum smekkbuxum með hor í nefinu hvað þetta varðar.

 

Og hverjum er um að kenna?  

 

Yfirleitt eru ungir krakkar að vinna í þessum tuskubúðum með námi, hugsanlega á skítalaunum ef viðmiðið eru laun forstjórans. En klárlega ágætis vasapeningur fyrir skólakrakka sem búa í foreldrahúsum og sjaldnast eru látin borga heim.

 

Hafið þið séð auglýsingu í Morgunblaðinu sem er á þessa leið?

 

Fúlllyndur einstaklingur sem hefur engan áhuga á fólki óskast til starfa strax.

Menntun og reynsla ekki æskileg, né sérstakur áhugi á starfinu.

Verður að eiga IPhone 7  Plus

 

Nei, ætli það sé ekki frekar skilyrði að viðkomandi sé með ríka þjónustulund.

 

Vissir þú að starfsánægja felst ekki í þykku launaumslagi. Hefur ekkert með góða þjónustulund að gera og borga svo sannarlega ekki úr þér fíluna. 

 

Öllum ætti að vera ljóst að viðskiptavinurinn á alltaf skilið góða þjónustu. Viðskiptavininum á að finnast hann vera velkominn. Hann á undir engum kringumstæðum að fá á tilfinninguna að hann sé innbrotsþjófur, ber að neðan í frakka og sé staddur í herbergi þar sem tveir einstaklingar eru á fullu í eldheitum ástarleik. Common krakkar! Hvað er að frétta?  

 

Viðskiptavinurinn borgar launin ykkar.

 

Ég vann í mörg ár í tískubransanum, bæði sem almennur starfsmaður og sem verslunarastjóri. Og ykkur að segja var þetta ein skemmtilegasta vinna sem ég hef unnið. Gríðarlega krefjandi og alltaf nóg að gera þótt enginn kúnni væri í versluninni. Ég elskaði samskiptin við viðskiptavininn og enginn dagur var eins. 

 

Starfsgleðin sem slík er lika undir manni sjálfum komið. Og mórallinn verður að vera góður á vinnustaðnum, það er skilyrði. Svo og samskipti við stjórnendur, því öll viljum við vera metin að verðleikum.  

 

Ég hata ekkert sérstaklega mikið að ráfa á milli verslanna og ætla að gerast einskonar “huldukona”. Taka út verslanir, veitingastaði, sjoppur, eða hvað það er sem mér dettur í hug .það sinnið og skrifa um upplifun mína á þjónustunni, hvort sem hún er léleg eða góð. Hvernig staðurinn virkar á mig ofl.

 

Ég mun ekki halla á neinn, né upphefja annan. Ég mun skrifa hreinskilningslega út frá minni eigin reynslu. Og ég ætla meira að segja að reyna að vera fyndin. Ég mun ekki hætta fyrr en mér verður meinað að fara inn í allar verslanir á höfuðborgarsvæðinu. Djók. Spegillinn þorir án tillits til auglýsingatekna!

 

Fyrsta verslunin sem ég skrifa pistil um er ZARA í Kringlunni. En ég kíkti þar við í vikunni sem leið. 

 

Fylgstu með okkur á Facebook!