Hver er ekki til í einn stuttan...


...föstudagspistil.

 

Hakkað buff í matinn og Lindubuff í eftirrétt á Bessastöðum? Forseti vor mætti með buff á hausnum og þjóðin er klofin í herðar niður varðandi málið. Ég persónulega myndi aldrei fyrir mitt litla líf láta nokkurn sjá mig með buff – en öðrum finnst hann svo alþýðlegur.

 

Ég vil upplifa virðingu og traust þegar ég sé forsetann minn, en ég hef ekki ennþá fundið þá tilfinningu með okkar ágæta Guðna og það var langt í frá í mínum huga þegar hann stóð þarna með buffið eins og hálfgerð fuglahræða. „Tískudrottningin“ á Bessastöðum var víst erlendis og þess vegna slapp sagnfræðingurinn svona illa til hafður út úr húsi

.

Indverska prinsessan okkar stefnir á landvinninga á Indlandi. Leoncie er að yfirgefa klakann eina ferðina enn og stefnir í pólitíkina í heimalandinu. Hún gagnrýnir Ísland, ekki búandi hérna í stillingunni og heilbrigðiskerfið er rándýrt, svo ég vitni í orð hennar.

 

Hún var í viðtali á RÚV á dögunum og benti á að hún er að standa fyrir tónleikum þar sem helmingur innkomunnar rennur í góðgerðamál á Indlandi. Hún gagnrýndi einnig Guðna Th forseta, fyrir það að ætla að láta kauphækkunina renna í góð málefni. Hún segir hann vera að gefa peninga sem hann eigi ekki. Þetta eru peningar landsmanna, hann er ekki að gefa úr eigin vasa, segir prinsessan, soldið til í því eða hvað?

 

Stjórnarmyndarviðræður runnu í sandinn hjá Bjarna Ben og hefur Katrín fengið umboðið. Flestir flokkar eru bara með eitt stefnumál, að vinna ekki með Sjálfstæðisflokknum. Það kannski sameinar restina, ná völdum bara til þess að stærsti stjórnmálaflokkur landsins, vilji 30% þjóðarinnar komist ekki að.

 

Hún er furðuleg þessi pólitík. Eineltið leynir sér ekki. Óttar Proppé var lagður í einelti af Svandísi Svavars, Jóni Þór úr Pírötum og Jóhönnu Sigurðardóttur, sem dustaði rykið af sjálfri sér, kastaði sér á ritvélina og sendi frá sér yfirlýsingu til fjölmiðla með bréfdúfu. Birgitta hefur sýnt sitt rétta andlit, það er að segja hrokann og vona ég bara svo innilega að Píratar eigi ekki sæti í næstu ríkisstjórn. Guð bjargi okkur frá því að þessi kona verði ráðherra.

 

Dagur B. Eggerts. borgarstjóri, hefur verið að play-ja góða gæjann upp á síðkastið. Stökk eins og strippari upp úr rjómatertu með nýja og góða fjárhagsáætlun. Hann sá útreiðina sem Samfylkingin fékk í kosningunum og varð að grípa til örþrifaráða. Var samt lítið fyrir að ræða 11 milljarða skuldaaukningu á næsta ári, en hey fuck it maður, við borgum þetta bara seinna.

 

Dagur hélt áfram í góða gírnum og sýndi kennurum mikin andlegan stuðning. Enda hefur meirihlutinn verið að leggja fé í skólamálin og bíða eftir að samið sé við kennara til að geta pungað út. Á sama tíma hafnaði hann kauphækkun samkvæmt kjararáði.

 

Góða skapið fauk þó fyrir lítið þegar netmiðill birti að Dagur fær rúmar 300 þúsund á mánuði fyrir að mæta á einn stjórnarfund hjá Faxaflóahöfnum á mánuði. Í framhaldinu lagði Sveinbjörg, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins beiðni um að Dagur geri grein fyrir launum sínum. Blessaði sætabrauðsdrengurinn veður inn í helgina með fýlusvip og er víst ókátur með hnýsnina um kaup og kjör.

 

Málefni flóttafólks hafa verið mikið í umræðunni í vikunni. Þetta er viðkvæmur málaflokkur sem hættulegt er að tjá sig um. En ég verð að segja ykkur smá sögu.

 

Vinapar mitt býr í miðborginni og á stigaganginum er íbúð sem Rauði krossinn er með í leigu fyrir hælisleitendur. Vinur minn hringdi í mig reiður og sagðist vera að gefast upp á þessu ástandi. Það er víst ekkert grín þegar vísa þarf fólki úr landi.

 

Auðvitað eru þessir einstaklingar og fjölskyldur ósáttar við brottvísun og reyna að verjast og neita að fara. Í síðustu viku var einn hælisleitandi sóttur í stigaganginn með tilheyrandi látum.

 

Hann neitaði að fara og lögreglan varð að beita valdi. Starfsmaður frá Rauða krossinum var á staðnum. Vinur minn ákvað að eiga orð við starfsmanninn og greindi frá því að þessar aðstæður í húsinu með þessum reglulegu uppákomum væri nær ólíðandi, auk þess gengu hælisleitendur í eigur íbúanna í sameign.

 

Starfsmaður Rauða krossins kom með ótrúlegt svar – „seldu bara íbúðina og flyttu“ já samkvæmt þessum starfsmanni eigum við að færa okkur um set ef okkur er ofboðið umsátursástand við heimili okkar.

 

Góða helgi,

Árni Árnason