Hjónabandið mitt var búið áður en hlaupið hófst...


Ég gæti hugsanlega gerst sérlegur talsmaður og fulltrúi þeirra sem taka ekki þátt í göslagangi, sem lyfting lóða felur í sér. Hopp og hlaup og þessháttar...
 
Er reyndar á því að þetta sé hrein og klár misþyrming á liðum, vöðvum og hvað þetta heitir, dótið sem er pakkað undir húðina... 
 
 
Einu sinni ætlaði ég að verða ofsalega flott hlaupafrík og golfari. Þetta var í fyrndinni, þegar ég bjó á NZ. Golfkylfurnar voru aldrei teknar upp úr pakkningunum og í dýrindis hlaupaskóna fór ég einu sinni, sælla minninga.
 
Með mínum hitteð-fyrrverandi, sú ferð endaði næstum með geðveiki og dauða...
 
Í hvíta skó með bleikum röndum fór ég. Jogginggalli í stíl. Við byrjum að hlaupa. Höfðum sett stefnuna á hlaup einu sinni á dag...eða svo lengi sem bandið okkar á milli entist.
 
Lítið vissum við þá, en hjónabandið var búið áður en við hófum hlaupið...öllu heldur áður en sambandið byrjaði... 
 
Við byrjum að hlaupa. Hann byrjar að hrækja...ég lét það nett pirra mig, segi ekkert í fyrstu...en einbeiti mér þeim mun meira að því að flagsa hárinu fagurlega í sólinni....í stíl við limaburðinn...sjáið þið þetta ekki fyrir ykkur? 
 
Loks gat ég ekki orða bundist þegar hrákinn var orðinn að einum lítra og slóðin vel merkt af pirringnum sem var að drekkja mér! 
 
-Af hverju þarftu að hrækja svona mikið, þetta er ógeðslegt?!
 
-Nú, ég er að hreinsa lungun...maður á að hrækja hressilega þegar maður hleypur!
 
-Já er það...hræki ég?
 
-Nei enda kannt þú ekki að hlaupa!!!
 
-KANN ÉG EKKI AÐ HLAUPA! 
 
-Nei, þú ert einsog unglingsstrákur dinglandi löppunum eitthvað, með bleikan varalit í þokkabót...þú ert eins og fáviti!
 
-JÁ, ER ÞAÐ! Er ég eins og fáviti!? En hvernig ert þú?....(örg.is)
 
-Heiða sko...ég skal kenna þér að hlaupa (hann hrækti), þú stígur fyrst niður í hælinn svo á tábergið...(meira hrækt...)
 
-Þú þarft sko ekki að kenna mér að hlaupa! Veit ekki betur en að þú sért búinn að liggja í sófanum síðan ég kynntist þér. Í rúm 10 ár. Reyndar búinn að mastera þá list. OG HÆTTU AÐ HRÆKJA!
 
-HEYRÐU GÓÐA MÍN...ég hræki eins og ég vil!
 
Áfram hélt eða þar til við hlupum heim á leið. Í sitthvoru lagi, sitthvora leiðina...langt í burtu frá hvort öðru. Forever and ever. 
 
Síðasliðið sumar keypti ég mér línuskauta. Hversu oft fór ég á þá?
 
Einu sinni takk fyrir og veskú.
 
Eigum við eitthvað að ræða það þegar ég fór til einkaþjálfara í WC...svaka flott prógramm og allt að gerast. Þegar við höfðum farið í gegnum prógrammið, segir einkaþjálfarinn;
 
-Heiða mín svo passarðu þig vel að teygja, ég þarf að rjúka.
 
Gerði ég það? Neibb...
 
...ég læddist út þegar þjálfarinn sá ekki til....mætti ég aftur?
 
NEI!
 
Var ég að drepast daginn eftir?
 
JÁ!!!
   
Ég kýs einfaldlega að rölta um í náttúrunni og njóta augnabliksins án mikillar áreynslu.
 
Alltaf, ekki bara einu sinni.
 
Hvet þig til að finna þá hreyfingu sem hentar þér best, kæra smákaka.