Saga súkkulaðisins + Gómsætar uppskriftir sem þú getur ekki staðist!


Um aldir hefur súkkulaði verið afar vinsælt meðal fólks um víða veröld og er litið á það sem nánast sjálfsagðan hlut í daglegu lífi fólks. En er súkkulaðið ekki bara tiltölulega nýlegur hluti af daglegu lífi nútímamannsins?
 
Saga súkkulaðis hefst um 200 e. Kr. hjá Aztekum og Maya indíánum í Suður-Ameríku. Þeir tignuðu kakóbaunina og álitu hana vera guðafæðu. Mayar töldu jafnvel að ef þeir drykkju óþynntan, ósættan drykk úr gerjuðum kakóbaununum myndu þeir öðlast visku, skilning og orku. Eingöngu hin ráðandi stétt og prestastéttin máttu neyta súkkulaðisins, enda var það talið heilagt.
 
Árið 1492 fékk Kólumbus að smakka súkkulaði og tók nokkrar kakóbaunir með sér heim til Spánar en hafði ekki hugmynd um hvernig skyldi fara með þær. Næstum því tuttugu árum síðar fór samlandi hans, landkönnuðurinn Hernando Cortez, til Suður-Ameríku og smakkaði súkkulaðidrykk Aztekanna. Hann flutti einnig baunir með sér heim og í þetta skiptið gátu Spánverjar notið súkkulaðis, lengi vel einir Evrópuþjóða.
 
Á Spáni sættu menn reyndar súkkulaðidrykkinn sem Cortez hafði fengið hjá Aztekunum með hunangi og sykri því hann var heldur beiskur fyrir þeirra smekk. Einnig komust Cortez og félagar að því að súkkulaðidrykkurinn væri líklega bragðbetri heitur en kaldur og síðan hefur heitt súkkulaði átt vísan stað í hjörtum fólks. Spánverjar varðveittu súkkulaðileyndarmálið í heila öld áður en nágrannar þeirra fengu að njóta þess.
 
Spænsk prinsessa giftist Loðvíki XIII Frakkakonungi árið 1615 og þannig komst leyndarmálið upp. Brátt breiddist súkkulaðineyslan út um England, Austurríki, Ítalíu, Þýskaland og Sviss. Það var sænski grasafræðingurinn Carl Von Linné sem gaf kakótrénu hið afskaplega viðeigandi nafn Theobroma Cacao, guðafæða, árið 1753.
 
 
Að lokum eru hér tvær uppskriftir sem ættu ekki að svíkja neinn súkkulaðiunnanda:
 
Mousse au chocolat
Fyrir 6-8
 
225 g dökkt súkkulaði
50 g ósaltað smjör
9 eggjahvítur
125 g sykur
6 eggjarauður
 
Bræðið saman súkkulaði og smjör í vatnsbaði. Þeytið eggjarauðurnar létt og blandið saman við súkkulaðið og smjörið. Stífþeytið eggjahvíturnar með sykrinum og blandið síðan í smáum skömmtum við súkkulaðið með sleif eða sleikju. Hellið moussinni í litlar skálar eða jafnvel expressobolla og geymið í kæli.
 
Dökkar truflur með hunangi
 
600 g 56% Valhrona súkkulaði
75 g lynghunang
4 dl rjómi
60 g smjör
 
Hakkið súkkulaðið og setjið í skál. Setjið hunang og rjóma í pott og hitið að suðu. Hellið því síðan yfir súkkulaðið og hrærið vel í á meðan. Bætið mjúku smjörinu í og hrærið vel. Hellið þessum massa í form og setjið plast yfir. Kælið. Rúllið massann nú í kúlur og veltið þeim upp úr kakói eða hökkuðum heslihnetum, en einnig má velta þeim upp úr bráðnu súkkulaði.
 
Höfundur Café Konditori.
heimild:www.freisting.is