Er tyggigúmmí óhollt fyrir okkur? Stutta svarið er: Já!


Er tyggigúmmí óhollt fyrir okkur? Stutta svarið mun vera já. Ef það inniheldur sykur í einhverjum mæli.
 
Hver man ekki eftir að hafa sprengt heila HubbaBubba tyggjókúlubombu lengst upp í loft sem svo í kjölfarið hefur klístrast um allt andlit? Jafnvel hár?
 
Réttu upp hönd. Ég rétti upp hendur, tvær. Ég er sek. Og er enn að. Akkúrat núna. Finnst gott að láta jórturfóðrið liggja innan í gómnum. Og tyggja svo inn á milli.
 
 
Hvað með sykurlaust tyggjó? Einhverjir sérfræðingar á sviði tyggjóa, tanna og munnhols almennt, halda því fram að hægt sé að ná fram hvítari lit á tönnum með japli á þar til gerðu gúmmíi...
 
Röksemd þessara sérfræðinga er sú að það að tyggja sykurlaust tyggjó ýti við munnvatnskirtlum sem veldur því að munnvatnsmyndun eykst til muna.
 
Það mun hjálpa til við að „þvo“ í burtu bakteríur og ofbeldisfullar sýrur sem eru með einhverja stæla og ráðast á glerunginn; með það eitt fyrir augum að skemma, drepa og eyða.
 
Sykuragnir sem og leifar af mat halda á brott í flýti úr partýinu..bæ bæ. Andremman hverfur fast á eftir. Löngun í mat minnkar og ég veit ekki hvað og hvað...og hvað.
 
 
 
 
Í framhaldi ber að nefna að eintómt japl og jaml í munni getur orsakað vöðvaspennu í kjálkum.
 
 
Ef þú þjáist af iðrabólgu er þér ráðlagt að leggja tyggjóklessuna á hilluna, hugsanlega er best að henda henni alfarið. Við það að tyggja látlaust myndast óhjákvæmilega umfram loft þegar kyngt er, sem eykur á óþægindin.
 
 
En er óhollt að kyngja tyggjói? Stutta svarið er aftur; jamm. Þótt þú finnir kannski ekki fyrir líkamlegum áhrifum þá er gott að hafa í huga hvaða efni eru í tyggigúmmíi. Bragðefnum er nefnilega blandað saman við gúmmí og „polyethylen“ en ásamt því er náttúrulegu latexi troðið með í bland.
 
 
Það hljómar ekki eins og eitthvað sem ég vil setja í minn maga. Svo ég tali nú ekki um þá fullyrðingu að klessan dvelur í þörmunum í sjö ár... æi, nei takk.
 
 
Áttu tyggjó?
 
heida@spegill.is