Það er til Guð og það er til Djöfull


Það sem fer upp, kemur aftur niður. Það er næsta víst. Til er bæði gott og vont, svart og hvítt og allt þar á milli. Ég trúi því að það sé til Guð og djöfull. Hvernig ég skilgreini Guð er svo annað mál. 

 

Ég veit bara að hann er þarna, fyrir mér er hann kærleikur fyrst og fremst. Hversu oft hefur maður heyrt; ég trúi á sjálfa mig. Gott og gilt. Ég geri það sjálf, takmarkalaust. En þegar fólk trúir að það sé sjálft Guð Almáttugarson verð ég eilítið skrítin í framan.

Sorglegt til þess að vita að það, að trúa á Guð og hans félaga, kærleikann eða hvað veljum að kalla „þetta“ sé tilefni heilu styrjaldanna. Fólk getur ekki einu sinni komið sér saman um hvort skrifa eigi Guð með stórum eða litlum staf. Hvort skrifa eigi Guð yfir höfuð. Hvort Guð sem hann eða hún. Hvort hann/hún sé Guð eða heiti Guð.

Trú hlýtur alltaf að vera persónuleg reynsla hvers og eins.

Ég þarf ekki annað en að horfa á blómin, sólina, fegurðina og börnin mín til að vita og sjá að ég persónulega er bara krækiber í helvíti í öllu partýinu. Svo vanmegnug gagnvart sköpunarverkinu. Það er ekki fræðilegur möguleiki að ég hafi eitthvað með neitt af þessu að gera persónulega. Ekki þú heldur ef út í það er farið.

Ef ég tek börnin mín sem dæmi, þvílíkt flottir karakterar, svo miklu flottari en ég öll til samans. Þótt ég tæki alla mína kosti, legði þá á borðið fyrir framan mig, þá er það bara brotabrot af því sem þau eru.

Eini þáttur okkar foreldranna var eitthvert brölt að næturlagi (btw: alveg fínt sko…) restin var ekki í okkar höndum nema að verulega litlu leyti. Framhaldið var það besta sem þau sjálf tileinkuðu sér og lærðu af hegðun okkar og því sem við höfðum fram að færa. Og annarra. Það sem upp á vantaði fengu þau í vöggugjöf, innpakkað í fallegan glanspappír með litlu korti sem á stóð; Til hamingju með lífið. Farðu vel með það. Þú ert undir náðinni. Ég mun ávallt standa við hlið þér. Þinn Guð.

Lífið býður manni upp á allskyns reynslu. Sigra, ósigra og allt þar á milli. Hversu gott er að trúa á að allt fari á besta veg þegar maður er staddur í dimmum dal, sér ekki ljósið, á sér ekki von? Það er best.

Að trúa því að allt fari á besta veg með tilstilli einhvers sér æðra. Að á herðar manns sé ekki meira lagt en maður getur borið. Að hlutirnir séu nákvæmlega eins og þeir eru, vegna þess hvernig þú hugsar, hvað þú tileinkar þér dagdaglega. Er nákvæmlega það sem þú ert í dag. Hugsanir þínar skapa þína framtíð.

Maður skyldi fara varlega í að óska sér. Óskir nefnilega rætast. Bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt.

Fyrir einhverjum árum lét ég af hrokanum, kæruleysinu og attitjúttinu; „æi, fokkitt“ og „æi fokkaðu þér“; ….þvílíkur léttir. Drullutöff og mikil erfiðisvinna að vera töffari dauðans 24/7.

Bæði áhrifaríkara og áreynslulausara að vera maður sjálfur og tileinka sér það sem manni finnst fallegast í fari þeirra sem maður lítur upp til.

Að trúa á sjálfan sig, hafa háleit skýr markmið, fylgja þeim staðfastlega eftir. Finna fyrir draumnum verða að veruleika í hjartanu. Snerta tilfinninguna með fingrunum og trúa því að sá sem öllu ræður vísi þér réttu leiðina, hjálpi þér að ná settu marki; hefur reynst mér best.

Óska sér, trúa, missa aldrei sjónar á draumnum, treysta og sleppa…..svínvirkar!

Og já; vera jákvæð/ur.

Prófaðu!

Ykkar einlæg.