Stefnuleysi ríkjandi varðandi vistun ungra barna


 

Daggæsla ungra barna hjá Reykjavíkurborg.
Opið bréf til Skóla- og frístundasviðs.

Reykjavík 17. janúar 2017Nú hefur dagforeldrum fækkað verulega á liðnum misserum úr ca 212 í um 150 hjá Reykjavíkurborg. Ástæðuna má rekja að sumu leiti til þess að fæðingum hefur fækkað á síðast liðnum árum sem og að stefnuleysi hefur verið ríkjandi hjá borgaryfirvöldum varðandi vistun ungra barna inn á leikskóla.

 

Hafa börn fengið pláss allt niður í 12 til 14 mánaða aldurs þegar önnur hafa þurft að bíða til 2ja ára og rúmlega það.


BARNIÐ, félag dagforeldra í Reykjavík, hefur miklar áhyggjur af þessari þróun mála, og hefur ítrekað reynt að koma þessu á framfæri við Skóla- og frístundarsvið við daufar undirtektir. Má þá sérstaklega nefna dæmi þess að tilkynning hafi verið send foreldrum barna hjá dagforeldrum og einnig dagforeldrum sjálfum sl haust, um að komið væri að innritun barna á leikskóla, um áramótin, sem fædd væru í mars/apríl árið 2015.

 

Fannst öllum, sem að þessum málum koma, loks gott framtak hjá borginni að gefa svona góðan fyrirvara því uppsagnafrestur á plássum hjá dagforeldrum er einn mánuður eins og flest öllum leikskólum. En þrátt fyrir að borgin hafi gefið út þessa yfirlýsingu stóðst hún ekki, öllum til mikilla ama.

 

Foreldrar ekki sáttir með að börn þeirra komist ekki inn á leikskóla og dagforeldrar búnir að lofa plássum þeirra barna sem hefðu átt að fá plássúthlutun hjá leikskóla. Hvað eigum við dagforeldrar að gera í svona aðstæðu?

 

Er það ekki að hlusta, taka mark á borginni og vinna eftir þeirra orðum, sem við flest öll gerðum, og hvað kom út úr því? Við sitjum uppi með reiða foreldra sem ekki komast að hjá okkur þrátt fyrir fengin loforð um pláss vegna orða Skóla- og frístundasviðs.

 

Hafa margir dagforeldrar séð sig knúna til að segja upp elstu börnunum í vistun hjá sér sem með réttu ættu að vera komnir inn á leikskóla til að rýma fyrir yngri börnum. En þá hafa þeir foreldrar verið að vonum mjög ósáttir.

 

Er þetta ásætanlegt fyrir foreldra sem og dagforeldra? 

 

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. janúar 2017
 

Margir segja að dagforeldrar eigi ekki að lofa plássum sem ekki eru formlega laus, en við sem sjálfstætt starfandi stétt verðum líka að hugsa um okkar hag.
 

Eigum við ekki að geta tekið skóla- og frístundarsvið trúanleg þegar að þeir senda út frá sér yfirlýsingar?
 

Einnig er það erfitt fyrir okkar starfsumhverfi að borgin getur kippt inn börnum á leikskólana allan ársins hring. Væri ekki betra fyrir alla aðila, þ.e borgina, foreldra, leikskólastjóra sem og dagforeldra að það væru bara tekin inn börn 2svar á ári t.d að hausti og áramótum.

 

Þá myndi það varla vefjast fyrir neinum hvernær barnið þeirra væri líklegast að komast inn á leikskóla. Ef það kæmist ekki inn að hausti myndi það eflaust komast inn á áramótum.

 

Þessi vinnustefna er ekki að hjálpa neinum í sínu atvinnuumhverfi.

 

Með þessari stefnu borgaryfirvalda verður stór hópur dagforeldra atvinnulaus yfir sumarmánuðina þegar börnum er kippt frá þeim inn á leikskóla áður en sumarfrí hefjast.
 

Að lokum er gaman að nefna að borgarmeirihlutinn talar um að koma til móts við barnafjölskyldur en hvernig er hægt að tala um það þegar svona eru vinnubrögðin  og einnig hefur hækkun á niðurgreiðslum rétt um 1.200 kr. pr barn á mánuði frá s.l. áramótum og hafði ekki hækkað s.l. tvö ár og er langt undir nágrannasveitafélögum.

 

Er það áskorun frá okkur í Barninu félagi dagforeldra í Reykjavík að borgin komi á móts við foreldra um hækkanir á niðurgreiðslum svo að ekki sé svona mikill munur á mánaðargjaldi foreldra til dagforeldra og leikskóla.

 

F.h. Barnsins, félags dagforeldra í Reykjavík,

 

Halldóra Björk Þórarinsdóttir

formaður

 

Þetta hafði Kjartan Magnússon borgarfulltrúi að segja í athugasemd undir grein Halldóru: 

 

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur hefur samþykkt að stofna starfshóp í samstarfi við félög dagforeldra um þróun og breytingar á dagforeldraþjónustu borgarinnar. Við fulltrúar Sjálfstæðisflokksins teljum að æskilegt sé að efla þjónustu dagforeldra í stað þess að leggja stein í götu þeirra eins og núverandi borgarstjórnarmeirihluti hefur gert með ýmsum hætti og lögðum fram eftirfarandi bókun um málið:

 

,,Á árunum 2011 – 2016 fækkaði dagforeldrum í Reykjavík um 29% eða úr 204 í 145. Á sama tímabili fækkaði börnum hjá dagforeldrum um 21% eða úr 781 í 618. Að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokksins er hér um að ræða óæskilega þróun, sem rekja má til fjandsamlegrar stefnu meirihluta borgarstjórnar gagnvart starfsemi dagforeldra á umræddu tímabili undir forystu Samfylkingarinnar.

 

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að sú vinna, sem nú verður hleypt af stokkunum samkvæmt fyrirliggjandi tillögu, fari fram í góðu samstarfi við félög dagforeldra með það að leiðarljósi að efla starfsemi þeirra en ekki að draga úr henni. Mikilvægt er að staðinn verði vörður um dagforeldrakerfið og það eflt svo tryggt verði að það verði áfram raunhæfur valkostur fyrir daggæslu barna í öllum hverfum borgarinnar."

 

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Reykjavíkurborgar