Má bjóða þér hnetusmjörs og banana hristing?


Við höfum fæst tíma til að undirbúa próteinríka eggjaköku að morgni. Þá kemur þessi sterkur inn – nánast stútfullur drykkur af próteini sem gerir okkur kleift að hlaupa, snúa okkur í hringi, dansa jafnvel, nú eða sparka ef vill... (mæli samt ekki með ofbeldi).
 
Drykkurinn er klárlega afbragð ef þörf er á að hoppa framúr rúminu og undir sturtuna án vandkvæða og erfiðis. Í stuttu máli þá býr prótein yfir þeim eiginleikum að færa okkur vel af orku inn í daginn. 
Hér er á ferðinni auðveldur drykkur með kanil, vanillu, kakói og sitthvað fleira, sem gerir það að verkum að þetta bragðast í raun einsog eftirréttur, svo orkuríkur og góður að morgni!
 
 
Við þurfum:
 
1 bolla mjólk (léttmjólk, fjörmjólk eða mjólk að eigin vali)
½ bolla af frosnum banana (í sneiðum)
1 msk hnetusmjör
¼ tsk kanill
½ tsk vanillu
Smá kakóduft (valfrjálst – notað til skreytinga)
 
 
Svona förum við að:
 
Skellum öllu saman í blandarann góða – þar til orðið slétt eða rjómalagað.
 
Hellum því næst í hátt glas (eða einnota ef þú ert á harðaspretti og hyggst taka drykkinn með þér).
 
Sé þess óskað, má skreyta yfirborðið með kakóduftinu.
 
Prótein: 13.3 grömm
 
Verði ykkur að góðu og eigið góðan dag!
 
Fylgist þú ekki örugglega með okkur á Facebook?