Stjörnuspá Spegilsins - ÁGÚST - KYNHVÖTIN


Stjörnuspá Spegilsins og allt í gríni! Mun kynhvötin hverfa með öllu í ágúst? Ertu jafn góður bílstjóri og þú heldur? 
 
"Mundu að ástin kemur í öllum stærðum og gerðum og með þessu áframhaldi, nær ástin ekki að rata til þín til þín...í réttri gerð og stærð."
 

Steingeit
Þér líður vægast sagt stórkostlega eftir heimsóknina hjá kynsjúkdómalækninum og upplifir þig sem afar kynþokkafullan einstakling. Hvernig sem það er nú hægt. Þetta er tilfinning sem ætti að duga þér langt inn í veturinn. Heppnin er með þér í ágúst, því þú munt finna tyggigúmmí reglulega á ólíklegustu stöðum.

Fiskar
Það eru vísbendingar í loftinu um ástin sé að glápa af þér andlitið, en þú tekur ekki eftir því fyrir trjánum, þar sem þú stendur út í skógi. Hugsanlega er best að skottast út úr skóginum, standa á tá og horfa í kringum sig, nú eða opna augun, því þá gæti heppnin klárlega orðið þér hliðholl í ágúst.
 
Vatnsberi
Hundar geta verið bestu vinir mannsins. Jafnvel katta og barna. Hundar eru sveiganlegir. Taktu þér þá til fyrirmyndar og vertu ekki svona andskoti stíf/ur í viðmóti. Því raunverulega býrðu yfir persónuleika sem fær fólk til að brosa. Skelltu hundi í ól, taktu spítuna úr rassgatinu á þér og gakk örugg/ur inn í ágúst. Ef þú átt ekki hund, fáðu einn lánaðan úr næsta garði... 
 
Vog
Þú ert sjálfsagt ánægð/ur með að sumar er brátt á enda, Framtíðin er það sem þú gerir úr henni einsog þú veist. Íhugaðu að versla þér efni í heimalagaða kjarnorkusprengju og fagna! Fagna hverju?Stórkostlega falleg og ekki síst kynæsandi vera verður á vegi þínum í ágúst. Reyndar náskyldur ættingi...
 
Hrútur
Ágúst mun verða nýtt og gott upphaf fyrir þig og þína. Eins og þú veist þá er lífið fullt af hólum og hæðum. Niðurskurði og svo framvegis. Í grundvallaratriðum munu hólar og hæðir minnka eða hverfa með öllu í ágúst, samhliða kynhvötinni. En hún minnkaði snarlega eftir að maki þinn rakaði af sér hárið og byrjaði að sofa í hermannastígvélunum.
 
Bogmaður
Fréttir munu berast þér í ágúst frá fyrrum vinnufélaga. Fréttir um að viðkomandi hafi um árabil verið ástfangin/n af þér. Þetta verður frekar vandræðalegt vegna þess að þú hefur ekki rass í flugu áhuga. Hefur reyndar alltaf hugsað um þennan aðila sem daunillan bavíana... 

Meyja
Minniháttar breytingar hafa orðið á ökuhæfni þinni á liðandi sumri, til batnaðar. Samt reikar þú um götur bæjarins eins og hífuð halastjarna með skott og hala. Mundu að ástin kemur í öllum stærðum og gerðum og með þessu áframhaldi, nær ástin ekki að rata til þín ...í réttri gerð og stærð.

Ljón
Það bíður þín dularfullur pakki á pósthúsinu. Þetta er ekki tjalddúkur, það tikkar ekki í honum, ekki dularfullt duft. Það er ekki eldrauður stimpill á honum sem á segir; ÁRIÐANDI. Það er hinsvegar bölvuð skítafíla af honum og ertu beðin um að sækja pakkann við fyrsta hentugleika.

Krabbi
Það getur verið hugsanlegt að þú hittir óvænt fyrir ástina í leigubíl nokkrum dögum í ágústbyrjun. Þið skiptist á símanúmerum. Þú tínir miðanum með númerinu og ferð á algjöran bömmer. Situr upp i með helvítis leigubílstjórann og bölvað bras...

Tvíburar
Fótatak þitt er háværra en vanalega. Hugsanlega nýju skórnir. Ekkert alvarlega en svo. Ekki vera svona lakur leikmaður og settu markið örlítið neðar þegar kemur að ástinni. Og hafðu i huga, það er bannað að giftast gæludýrunum sínum i flestum löndum.

Naut
Ástin er svo einfalt fyrirbæri, sérstaklega þegar þú ert ástfanginn. Þannig að hvað segir þú um að taka þér pásu frá sambandinu og prófa eitthvað nýtt? Ástin kemur jú þegar þú átt síst von á henni. 36% af öllum ástarævintýrum byrja á klósettinu. Láttu þér hlakka til haustsins.

Sporðdreki
Líkurnar á að þú sleppir við meiðsli fyrir áramót eru ólíkleg. Mest af líkamsþunganum mun setjast á einn tilekin stað og auka þannig á ójafnvægi þitt. Nefnilega á rassgatið. Lifðu lífinu lifandi og eins og þú vilt og þú munt öðlast meiri hamingju. Jafnvel þó það þýði að eyða restinni af ævinni í fangelsi...

Ert þú ekki örugglega að fylgjast með okkur á Spegli?