Peningar vaxa víst á trjánum - taktu ábyrgð!


Hef átt nóg af þeim. Of lítið af þeim og allt þar á milli. Hef eytt um efni fram, en aldrei of litlu. Allavega ekki svo litlu að ég hafi nokkru sinni myndað varasjóð, en ég á sparibauk. Sem er svín.
 
Ég hef „lent“ í fjárhagsskaða/fjármissi af völdum annarra. Ég sjálf galgopast til að kvitta undir himinhátt námslán hjá "bestu" vinkonu minni, með bláu bleki sem hafði þær afleiðingar í för með sér að ég var á „svartasta“ listanum í mörg ár hjá lánakóngum þessa lands. Afþví að hún stóð ekki við sitt. 
 
Það var hlegið að mér ef ég bað um 10 þúsund í yfirdrátt. Ef ég bað um 15 þúsund, var hringt í sérsveit lögreglunnar... 
 
Undirskrift mín endaði þannig að lánadrottnar hreinlega klipptu kennitöluna mína í sundur og Guð einn veit hvað þeir gerðu við hana. Settu hana örugglega í tætarann. Hvað gerir maður ekki fyrir vini sína? 
 
Ég var ekki í aðstöðu til að skipta um kennitölu einsog algengt er hjá fyrirtækjum, jafnvel stjórnmálaflokkum. Ég er jú af holdi og blóði en ekki kassi og steypa í formi fyrirtækis. Með ehf. eða hf. sem ættarnafn. . 
 
Það sem ég vill koma á framfæri með þessu er þetta:
 
Þegar þú skrifar undir sem ábyrgðarmaður hjá öðrum, þá ertu að skuldbinda þig. Ef viðkomandi greiðir ekki, þá borgar þú brúsann, það er bara þannig. Annars lendirðu í skít sem þessum, sem getur staðið yfir í mörg löng ár.  
 
Það þýðir lítið eða ekkert að argast við viðkomandi ef hann stendur ekki skil á sínu. Og alls ekki kæfa hann eða hana með kodda. Það þýðir vesen, jafnvel fangelsisvist.  
 
- Hversu oft höfum við heyrt: Djöfulsins auminginn, hann/hún lét allt bara allt falla á mig!?
 
Oft. Of oft.
 
Hafðu ávallt í huga: Ekki skrifa undir neitt hjá neinum nema þú sjáir fram á að geta staðið skil á skuldbindingunni sjálfur. Einfalt, ekki satt? Málið er bara að ef um fjölskyldumeðlim og/eða náin vin er að ræða, þá eigum við oft erfitt með að segja nei. Gerðu það samt, ef þú ert ekki borgunarmaður fyrir viðkomandi láni. 
 
 
Ég hef lært að lausnin liggur ekki í því að auka tekjurnar, miklu brýnna er að breyta hugsun okkar og viðhorfum til peninga. Peningar eru alls ekki af hinu illa. 
 
Mundu: Tekjur versus gjöld. Heppilegast er auðvitað ef tekjurnar eru hærri en gjöldin.
 
Ég á sínum tíma setti mér að markmiði að koma mér út úr því ástandi sem ÉG KOM mér í, með því að skrifa undir umrætt lán og treysta viðkomandi. Staðan virtist mér algjörlega vonlaus.
 
Ég fór til fjármálaráðgjafa, við settum upp markmið og við náðum takmarkinu innan þess tímaramma sem við settum upp.
 
En til þess að komast upp úr skítunum, þá þarf að horfa á staðreyndirnar og heildarmyndina blákalt, taka ábyrgð og fara af stað. Og umfram allt gefast ekki upp. Ég fékk fullt af nei-um á leiðinni - en hafðu í huga:.. 
 
...eftir því sem nei-unum fjölgar, þá með þolinmæði og elju færðu já á endanum. Vertu þolinmóð/ur. Staðföst/staðfastur. Og aldrei gefast upp á þessu ferðalagi... 
 
Taktu ábyrgð á þínum fjármálum. Hættu að vera fórnarlamb. "Aumingja ég" ertu aumingi kannski? Þú mátt það alveg. Þitt mál. 
 
Ekki segja já, þegar þú meinar nei. Þó um sé að ræða, einsog í mínu tilfelli "bestu" (hóst) vinkonu mína. Og ég er ekki að tala um neitt klink í mínu tilfelli. Ég var í heil 10 ár að komast út úr þessu helvíti.
 
Það geta allir tekið ábyrgð fjármálum sínum. Árferðið er sérlega gott í dag á Íslandi.  Leitaðu þér hjálpar fagaðila ef þess þarf. Kannski þarftu að skila bílnum, selja húsið og fá þér minna húsnæði, reykirðu? Hættu. Fáður þér vatn og hættu að drekka kók og brennivín. 
 
Þú einfaldlega leggur á þig það sem þarf. It's up to you. En svo geturðu líka farið hina leiðina - aulast þetta áfram og vorkennt sjálfri þér fyrir hversu illa var farið með þig...afsakið mig augnablik...ég þarf að æla smá...
 
Í öllum bænum, hættu að væla og fjárfestu í sjálfri þér. Vandamál eru ekki til, aðeins verkefni  sem þarf að leysa. 
 
Gangi þér vel. 
 
 
heida@spegill.is