Kartaflan í ýmsum útfærslum


Þær eru heimsfrægar og daglegur gestur á borðum flestra, ef ekki allra. Við þekkjum þær í ýmsum útfærslum, en erum við nógu dugleg við að breyta til? Við skulum skoða það sem hægt er að gera við þær:
 
Kartöflumús
 
Skrældu þær og sjóddu, maukaðu þær síðan. Bættu við mjólk og smjöri, saltaðu og pipraðu. Notaðu jafnvel sinnep, eggjarauðu, rifinn ost eða ólífu olíu. 
 
Steiktar kartöflur
 
Hitaðu þær í olíu, lækkaðu hitann og leyfðu þeim að krauma. Hreyfðu við þeim reglulega.
 
Kartöfluflögur
 
Skerðu þær þunnt og láttu þær þorna. Eldaðu í olíu.
 
Kartöflusalat
 
Sjóddu þær heilar, flysjaðu, sneiddu og helltu dressingu yfir (ólífuolía, salt og pipar og edik). Skorinn laukur má vera með í þessu partýi. Bara gott.
 
Eða þetta hefðbundna með majónesi, lauk og því sem hugurinn girnist úr kryddskápnum.
 
Kartöflubollur
 
Flysjaðu og skerðu í teninga. Sjóddu þær. Maukaðu og bættu við hveiti og eggjum, saltaðu og pipraðu (smakkaðu til). Búðu til bollur og sjóddu þær.
 
Soðnar venjulegar...
 
Þið kunnið það stelpur...já og strákar vonum við. 
 
Ofnbakaðar kartöflur
 
Skerðu þær í bita og komdu þeim í olíuborið eldfast mót. Dassaðu olíu yfir þær líka. Eldaðu þar til þær eru stökkar að utan og mjúkar að innan. Ég velti þeim við öðru hverju...vil hafa smá brúnan lit báðum megin. 
 
Bakaðar kartöflur
 
Gataðu þær með hnífsoddi og pakkaðu í álpappír. Bakaðu við 200°C. Taktu álpappírinn af og stilltu á grill í 10 mínútur í lokin, þá verður hýðið stökkt. 
 
Helltu helling af salti á ofnplötuna, gataðu kartöflurnar og raðaðu þeim ofan á saltið. Þetta er lúxus útgáfan af bökuðum. Engan álpappír hér. Æði.
 
Kartöflueggjakaka
 
Rífðu kartöflurnar í skál. Bættu við smátt söxuðum lauk, saltaðu og pipraðu og þeyttu egg til að setja saman við (bara berja þau...ekki stífþeyta). Hitaðu olíu á pönnu og settu blönduna í kökur svona 1 cm að þykkt. Steiktu og snúðu.
 
Þetta var nú bara smotterí...notaðu hugmyndaflugið ef þig þyrstir í fleiri útgáfur.