Hvernig sefur þú?


Við eyðum um einum þriðja af lífinu steinrotuð alveg hreint. Sofandi. En það er langt frá því að vera tímaeyðsla, þvert á móti. Það vitum við flest. En erum við nægilega passasöm með svefninn okkar? Kroppurinn sýslar ýmislegt þegar hann slekkur á sér.
 
Um leið og við líðum útaf og sofnum, hefst ferli sem er líkama og sál algjörlega ómissandi. Þetta er tíminn sem viðgerðir standa yfir og eiturefnum er eytt séu þau fyrir hendi. 
 
Sefurðu illa eða ekki nóg? Reyndu í öllum bænum að bæta úr því. 
 
Hér eru nokkur ráð til þess ætluð:
 
Vertu með svefnplan
Farðu í rúmið og á fætur á sama tíma alla daga. Jafnvel um helgar og á frídögum. Staðfesta hjálpar líkamsklukkunni að stilla sig rétt. Ef þú sofnar ekki á 15 mínútum, farðu þá fram úr og gerðu eitthvað sem róar þig, ekki liggja og hafa áhyggjur af því að geta ekki sofnað. Farðu upp í aftur þegar þú ert búin að slaka á. 
 
Athugaðu mat og drykk
Ekki fara banhungruð í rúmið, en heldur ekki sprengsödd. Passaðu líka að drekka ekki of mikið þegar nálgast háttatíma, svo þú þurfir ekki að fara fram úr til að pissa. Vertu líka varkár með nikótín, koffein og alkóhól...þessi efni hafa truflandi áhrif á svefninn þinn.
 
Búðu til hefð í kringum háttatíma
Gerðu það sama á hverju kvöldi þegar nálgast svefntíma. Eitthvað sem segir líkamanum að núna sértu að kúpla niður. Sem dæmi er heitt bað eða sturta, lestur á bók eða að hlusta á rólega tónlist. Helst með litla lýsingu. Ekki nota sjónvarpið sem svefnmeðal...
 
Láttu fara vel um þig
Búðu þannig um í svefnherberginu þínu að þar sé þægilegt að vera og það sé staður til að slaka á og sofa. Sæmilega svalt og ferskt, lítil lýsing og þokkalega þögult: Getur gert gæfumuninn fyrir svefninn þinn. Hafðu sængina og koddann eins þægileg fyrir þig og hægt er. Ekki sofa með einhverjar druslur um þig.
 
Farðu varlega í að dorma á daginn
Ef þú þarft endilega að leggja þig, ekki sofa meira en 10 til 30 mínútur á daginn. Og hafðu það um miðjan seinnipart dags. 
 
Hreyfðu þig reglulega
Passaðu þig bara að ef þú stundar hreyfingu að kvöldi, gæti það truflað svefntímann þinn. Hreyfðu þig frekar fyrri part dags, ef þú finnur þennan vanda dúkka upp. 
 
Passaðu álag
Ef þú hefur of mikið að gera og of mikið að hugsa...þá er líklegt að það komi niður á svefninum þínum. Reyndu að draga úr slíku. Til dæmis með því að skipuleggja þig og forgangsraða og hafa ekki áhyggjur af því sem ekki verður komið í verk. Leyfðu þér líka að taka þér pásu þegar þú þarft á henni að halda. Hlæðu með vinum þínum. Áður en þú ferð að sofa, geturðu skrifað niður það sem er í höfðinu á þér og geymt miðann til morguns. 
 
Ef þetta er ekkert að gera fyrir þig, talaðu við lækninn þinn. Svefninn skiptir öllu máli.