Hef séð berrassaðan lögreglumann


Mér finnst yfirmáta virðing og hræðsla við mennsk "yfirvöld" alltaf 100% fyndin. Kannski af því að ég hef séð varðstjóra lögreglunnar og skólastjóra úfna og sveitta á nærbuxunum.
 
Hlotnaðist meira að segja sá heiður að sjá typpin á þeim báðum. Og ykkur að segja eru þau ekkert frábrugðin typpum manna, sem dagsdaglega gegna "áhrifaminni" stöðum.
Ég hef rifist við "yfirvaldið" yfir galopnum klósettsettsetum. Ég hef alveg kvartað; af hverju sofnarðu alltaf strax á eftir? Og orðið fúl. 
 
En það er auðvitað aukaatriði. Ég er ekkert að fara út í þá sálma. Bara að koma því að með laumulegum hætti að ég bjó með þeim báðum. Í sitthvoru lagi reyndar.
 
Einu sinni heyrði ég, að ef maður ætti að halda ræðu og fyndist það erfitt...ætti maður bara að ímynda sér áheyrendur nakta. Allur taugatitringur yrði á bak og burt.
 
Hef reynt þetta trix þegar ég hitti "yfirvaldið" í þeim tilgangi að fá frest á greiðslu brennivíns-skatts fyrir fyrirtæki sem ég var í forsvari fyrir...svínvirkaði!
 
Ég þurfti ekki á því að halda á því fyrir einhverju síðan þegar ég hitti ákveðna menn í ákveðnum tilgangi, varðandi annað veitingahús.
 
Áður en ég vissi af var "strollan" 6-8 stk. mætt og það stundvíslega. Skyldu-úttekt á ákveðnum stað í ákveðnum tilgangi. Einhver taugatitringur gerði vart við sig í "mínu liði".
 
Um leið og ég sá þá koma þarna í röð datt mér í hug lækna-gaman-sería, þar sem allir gengu inn í halarófu. Misgáfulegir "hvítsloppar", með Ladda og Eddu Björgvins í fararbroddi. Heilsubælið. 
 
Nema hvað; úttektin gekk fínt. Enda voru þau öll kviknakin. 
 
Mér finnst spaugilegt hvað "uniform" og "vald" gera suma einhvern veginn "sporöskjulaga" í framan og enn aðra taugatrekkta. Sumir hækka um 10 1/2 cm, sem er auðvitað dásamlegt. Á meðan hinir missa tennurnar niður á gólft, út úr skoltinum á meðan þeir lækka hratt í sentimetrum.
 
Suss, ekki segja neinum. Ætla að treysta ykkur fyrir leyndarmáli. Uniform eða ekki. Við erum öll jöfn. Öll jafn merkileg eða ómerkileg. Öll jafn góð eða vond. Eða bara svona eins og við einsetjum okkur sjálf að vera, dag frá degi.
 
Þessir tveir tilteknu karlmenn -meira að segja kúkuðu...og skeindu sér. 
 
heida@spegill.is