Fimm ár síðan móðir mín dó -hún skildi eftir handa mér gjöf...


Ég man að skrefin í áttina að íbúðinni voru þung. Ég þurfti heljarinnar átök til að opna hurðina. Þegar ég hafði séð hana síðast, þá fyrir nokkrum dögum hafði hún legið á líkbörum. Það var 13. mars 2012. Það eru rúmlega fimm ár síðan...  
 
Almáttugur hvað ég sakna hennar stundum. 
 
Ég elskaði hana meir en orð fá lýst. Og geri enn. Hún var eins og barnið mitt...ég elskaði hana og mun alltaf elska hana. Mamma var veik. Hún bað ekki um að vera geðveik. En hún var góð kona. Mjög góð. Og falleg kona. 
 
Ég gekk hægum skrefum inn í íbúðina.  Ég var ein. Í fyrra skiptið var ég í fylgd lögreglumanna. Það var skrítið.
 
Ég settist niður þennan dag og leit í kringum mig í mannlausri íbúðinni. Ég fann gamalkunnu lyktina, sem ég þekkti svo vel. Ég man hana enn...Ég stóð upp og opnaði ísskápinn, allt að því feimin. Ég er ekki vön að opna ísskápa hjá öðrum, ekki einu sinni hjá þeim sem standa mér næstir. Þyngslin fyrir brjóstinu voru ólýsanleg.
 
Versta er að ég næ ekki enn þann dag í dag með nokkru móti myndinni úr hausnum á mér, þegar hún lá þarna lífvana á líkbörunum. Og ég leyfi þessari mynd að staldra við. Og gengst við tilfinningum mínum. Stundarkorn.
 
Helst þegar ég er í einrúmi. Mynd af mömmu þar sem hún lá á börunum, látin. Hún var blá og marinn...snyrtivörur voru út um allt gólf. Hún hafði greinilega verið að hafa sig til...svo veit enginn neitt meir. Nema Guð. Og hann má vel blessa sjálfan sig fyrir mína hönd, að hafa miskunnað sig yfir hana og tekið hana út úr þessu jarðlífi. Sem var ekkert líf fyrir hana. Mamma var samt ung þegar hún lést. Aðeins 62 ára gömul. Glæsileg kona. 
 
Ég labbaði inn í svefnherbergið hennar. Allt var hreint og fínt, allt í röð og reglu, eins og alltaf. Ekki er hægt að segja það sama um ringulreiðina sem einkenndi hennar nánasta umhverfi. 
 
Ég rak allt í einu augun í blað sem lá á gólfinu.
 
Ég tók það upp las:
 
Þó ég sé látin,
harmið mig ekki með tárum.
Hugsið ekki um dauðann
með harmi eða ótta.
 
Ég er svo nærri
að hvert eitt ykkar tár snertir mig
og kvelur, þótt látna mig haldið.
En þegar þið hlæið og syngið
með glöðum hug.
 
Sál mín lyftist upp í mót til ljóssins.
Verið glöð og þakklát fyrir allt
Sem lífið gefur.
Og ég þó látin sé tek þátt í gleði ykkar
yfir lífinu.
 
Höf: ókunnugur
 
 
Þessi orð eru mér enn í dag ómetanleg og ég leyfi mér að baða mig upp úr þeim á þessu kvöldi og minnast þessarar dásamlegu konu -elsku fallega mamma mín. Elsku klikkhausinn minn. Þvílík dásemd sem þú varst í þessu partýi sem lífið bauð okkur uppá. Elskan mín. 
 
Haldið þið að það hafi verið tilviljun að ég hafi fundið blaðið með þessum orðum á gólfinu undir þessum kringumstæðum fyrir fimm árum? 
 
Ég held ekki...
 
...í dag eru fimm ár síðan einsog ég minnist á í upphafi - fimm heil ár. Vá, tíminn æðir áfram og þegar maður gerir sér grein fyrir því, þá skynjar maður um leið hversu dýrmætt lífið er og hverfult. 
 
Nú veit ég....veit og skil svo margt. Þá helst, hversu lífið sjálft var henni þung byrði. Hvað raunir hennar og byrgðar voru þungar. Hversu fáa hún átti að þegar hún þurfti mest á sínum að halda.
 
Það voru ófáir sem snéru baki við henni sökum veikinda hennar. Fólk sem hefði átt að styðja hana allajafna. Svona samkvæmt bókinni.  En gerðu það ekki vegna vanþroska þeirra, sjálfselsku og græðgi. Það bjó ekkert illt í hjarta móður minnar.
 
Aðeins þeirra. 
 
Stærsta gjöfin sem mamma gaf mér, voru ekki þessi orð á blaðinu sem ég fann á gólfinu. Heldur sú lexía að kenna mér að greina á milli góðs og ills í fari fólks. Fyrir það færði hún stórar fórnir í formi fordóma og einmanaleika. Ég veit það frá fyrstu hendi, því ég horfði upp á það. Fyrir þessa gjöf er ég henni hvað þakklátust. 
 
Tár. 
 
Blessuð sé minning móður minnar, Magneu Ósk Óskarsdóttur. Megi hún hvíla í friði. Og kærleika. Ég elska þig ávallt ástin mín. 
 
 
 
Mamma mín, Magnea Ósk. 
 
heida@spegill.is