Of mikil vatnsdrykkja var að drepa mig…


Sérfræðingar tengdir heilsu eru stöðugt að hvetja okkur til að drekka vatn til að forðast ofþornun. Venjulega er talað um 6 – 8 glös á dag. En eftir að tveggja barna móðir Dawn Page var greind flogaveik og var hvött til að drekka aukalega 4 lítra á dag, sem leiddi til heilaskaða, fóru margir að velta fyrir sér hvort fjórir lítrar aukavega væru ekki of mikið af hinu góða.

 

Svarið er JÁ! Einsog með allt annað sem við neytum, getur of mikil drykkja, venjulega vatnsdrykkja, valdið skaða og jafnvel bana.

 

Fyrir nokkrum vikum fékk ég óvænt krampa, hrundi niður, missti meðvitund og féll í kjölfarið í dá. Ég vaknaði upp á bráðamóttöku í Fossvogi. Ég var þá nýkomin með gangráð í kjölfar hjartaáfalls. Ástæðan (enn sem komið er) sem mér var gefin eftir ótal rannsóknir, myndatökur og mælingar, voru þær að ég drykki of mikið vatn (ca. 8 lítra – en ég hef alltaf verið sjúk í vatn) sem ég losaði mig við jafnharðan.

 

Ég hafði því undangengnar vikur eða mánuði verið að losa mig við lífsnauðsynleg sölt  í leiðinni, en söltin eru að finna í blóðinu og var líkamlegt ástandið mitt talið undir hættumörkum. Ég missti líka hluta af minninu.  

 

Þegar ég hugsa tilbaka, þá hef ég verið einbeitninga- og áhugalaus. Hafði litla matarlyst. Alltaf slöpp með lítið sem ekkert úthald. Gleymin, með stöðugan höfuðverk. Í raun aðeins skuggi af sjálfri mér. Kannski hafa þetta verið einhverjir mánuðir, ég geri mér ekki alveg grein fyrir því. Ég er nefnilega týpan sem keyri mig áfram og stundum næstum því í klessu.

Ég fékk blóðtappa í mars eða apríl sl. (án gríns ég man það ekki alveg) Með þeim afleiðingum að ég missti málið og mátt í öllum útlimum og var það nokkra daga að ganga að mestu tilbaka. Vægast sagt óhugnaleg reynsla. Ég taldi mig hafa náð mér að fullu núna í haust, málfarið orðið nánast alveg skýrt, þó annað væri að há mér einsog slappleiki og stöðug þreyta. Minnisleysi ofl. leiðindi. 

Málið er,  þetta getur komið fyrir hvern sem er, þó ég þyki kannski heldur til of ung. 

Skildi hluti ástæðunnar,  þegar tappinn bankaði upp á hafi einnig verið gríðarleg inntaka mín á vökva? Maður spyr sig...og gríðarlegt álag? 

 

Of mikil vatnsdrykkja (sagði læknirinn mér) ruglar heilastarfsemina, sem útskýrir margt fyrir mér varðandi t.d. ákvörðunartökur sl. vikna, mánaða,  hvað ég hef sagt og gert sem er alls ólíkt mínum eiginlega persónuleika. En fyrst og alls ekki síðast. Ég var næstum því búin að drepa mig á of mikilli vatnsdrykkju. Og það er staðreynd. Og þeim skilaboðum vil ég koma á framfæri til flestra, víti til varnaðar.   

 

Í dag má ég innbyrða 1 ½ líter á dag af vökva. Kaffi, vatn, mjólk osfrv. er inn í þessu magni sem ég nefni. Varðandi framhaldið hef ég enga hugmynd um, því ég er ennþá í rannsóknum og undir eftirliti frábærra fagmanna sem heilbrigðiskerfið okkar býður landsmönnum öllum aðgang að.  

 

Of mikil vatnsdrykkja kemur ójafnvægi á natríum innihaldi líkamans. Þ.e. söltin og til þess að líkamsstarfsmenin virki sem best verða blóðsöltin að vera í jafnvægi. Ef við drekkum of mikið vatn, losar líkaminn sig við umfram magn af söltum með t.d. tíðari þvagláti, söltum  sem eru bráðnauðsynleg góðri heilsu. .

 

Ef vatn hinsvegar fer hraðar inn í líkama okkar en við náum að losa okkur við þynnist blóð okkar. Ef um ofneyslu er að ræða, þynnist blóð okkar - blóðið rennur einsog flestir vita inn á afar viðkvæm svæði, inn í frumur og líffæri einsog heilann, sem getur valdið bólgum og komið þannig í veg fyrir eðlilega virkni heilastarfseminnar.

 

Fyrstu einkenni of mikils vatnsinntöku eru stundum ógleði, uppköst, höfuðverkur, stöðug þreyta, pirringur og almenn vanlíðan. Eða svipuð einkenni og ef um ofþurrð væri að ræða. Ef ómeðhöndlað, getur þetta ástand fljótt leitt til alvarlegra sjúkdómseinkenna einsog í mínu tilfelli, einskonar flog/krampi, dá, sem getur valdið dauða innan fárra klukkustunda.

 

Til allra hamingju er þetta fáheyrt og er mest áberandi á meðal ungra og óreyndra íþróttamanna. Ofþornun er miklu meira vandamál fyrir flest okkar. Vatn er 1/3 af líkamsþyngd og við verðum auðvitað að drekka nægilegan vökva til að halda líkamsstarfseminni góðri Ekki of lítið og ekki of mikið. Flest okkar gætum við lifað í nokkrar vikur án matar, en aðeins nokkra daga án vatns. 

 

Vatnsdrykkja hjálpar til við að losa út úrgangs- og eiturefnum úr blóði okkar. Einnig flytur það næringu og súrefni um líkamann með blóðinu. Vatn virkar einsog smurefni fyrir liði okkar og augu. Hjálpar okkur við að kyngja og hjálpar einnig við að halda eðlilegum líkamshita og ver taugar okkar.   

 

Hófleg vatnsdrykkja er talin vera góð í baráttunni við aukakílóin. Vatnsdrykkja er sögð draga úr hrukkumyndun og jafnvel veita vernd gegn meiriháttar heilsuvandamálum einsog hægðartregðu, sumar tegundir krabbameina, hjartatengdum sjúkdómum, gallsteinum og þvagfærasýkingum sem dæmi.

 

Sem viðmið frá Food Standards Agency (Matvælaöryggisstofnun – UK) ætti „venjuleg“ manneskja að drekka 1,2 lítra af vökva á dag – sem er í kringum 6 – 8 glös.

 

Hinsvegar þeir sem eru hvað virkastir og duglegastir í ræktinni eða íþróttum, og/eða ef þú ert veikur, þarftu heldur meiri vökva. Einnig ef þú gengur með barni eða ert með barn á brjósti. Karlmenn í kringum 2 ½ líter en konur 2.2 lítra undir þeim kringumstæðum.

 

Vert er að hafa í huga er að mörg matvæli stuðla einnig að vökvainntöku. Einsog grænmeti og ávextir sem oft samanstanda af 85 – 95 % af vatni.

 

Hófleg neysla í gegnum daginn er talin best. Hófsemi í öllu er auðvitað best og það á að sjálfsögðu líka við með vatnsdrykkju einsog annað. Ég hvet þig lesandi góður til að hugsa vel um líkama þinn og anda. Hlustaðu á líkama þinn. Og leitaðu læknis. Ekki bíða með það, einsog ég hef alltaf gert í gegnum allt mitt líf. Bara brunað áfram í gegnum lífið á öflugum en biluðum kappaksturbíl. Þar til allt varð stopp...

 

Gangi þér vel og megir þú lifa við hestaheilsu alla tíð. Allt annað er rugl. Þú getur oftast bætt heilsufar þitt með góðu mataræði, réttri inntöku vökva, reglulegri hreyfingu, reykleysi, borða sem minnst sykur og losa þig við allt úr lífi þínu sem er þér skaðlegt og/eða veldur vanlíðan. Líkamlega eða andlega. 

Það á líka við um þá einstaklinga sem standa þér næstir í dag og veita þér enga gleði á nokkurn hátt. En sú pæling er efni í aðra grein…

 

Góðar stundir.

 

Ef þú vilt fá meiri upplýsingar smelltu hér -en fjöldi greina um málefnið má finna með

því að nota vinkona mína google.com.