Að lifa fallega. Og verða falleg, eins og þessi kona


Tannlæknirinn stóð fyrir framan mig í þarsíðustu viku þar sem ég lá. Ábúðarfullur með hendur á mjöðmum, tilkynnti hann mér það afar alvarlegur, að tennurnar eru á sífelldri hreyfingu...en samt væri jaxl sem sæti sem fastast lengst upp í himnaríki. Vei. 
 
Tennurnar stoppa ekki brot úr sekúndu, nema þessi lati ræfill sem hefur aldrei dagsljósið séð.  Þessi staðreynd mun eiga við um ykkar tennur líka kæru vinir, nema þær séu festar með tannlími...haldið því fast í þær, tennurnar. 
 
Í síðustu viku var ég að spjalla við vinkonu mína og nefni þetta við hana...þá segir hún:
 
-Veistu Heiða...nefið á manni og eyrun eru alltaf að stækka...augun breytast.
 
-Nei, í alvöru? Úff og svo skreppur líkaminn saman og við minnkum! Hárið þynnist einnig.
 
Þegar ég hugsa um þá staðreynd að fallegasta fólkið í mínum huga eru einstaklingar sem hafa LIFAÐ. Hafa lifað lífi sínu fallega eins og amma mín sem dæmi. Hún var á níræðisaldri þegar hún lést og hvílík fegurð!
 
Klisjan sem allir þekkja; fegurðin kemur að innan, verður aldrei of oft brúkuð. Hin sanna fegurð kemur einmitt þaðan.
 
Hafið þið séð fallegu konuna með rúnum rist andlitið af kærleik, viðraða af fyrri ákvörðunum lífs síns, æðruleysið uppmálað í litarhaftinu? Tóku þið eftir kærleikanum sem skín úr augunum?
 
Það er til fullt af þeim þarna úti. Ef þið rekist á eina, þá bið ég að heilsa. Megið skila til hennar að hún (hver svo sem hún er) sé mín helsta fyrirmynd í lífinu.
 
Skítt með þó nefið nái til Hafnarfjarðar úr hlíðunum, tennurnar hrynji úr mér ein af annarri, skallablettir myndist á hausnum og augun breytist...
 
Þetta er eitt helsta markmið mitt; að lifa fallega. Og verða falleg, eins og þessi kona. Þessar konur. 
 
heida@spegill.is