Viagra virkar staðbundið á liminn með því að auka blóðstreymi til hans


Þær sögur sem ég hafði heyrt af Viagra voru allar á sömu leið: Stanslaus standpína, fullnægðar konur með stjörnublik í hárinu og karlar með yfirnáttúrulegt „blæti“ yfir karlmennsku sinni.
 
Karlmennsku sem var „triggeruð“ með því að borða eina litla bláa lús. Lús í formi töfrapillu sem keypt var af leigubílsstjóra í húmi nætur á „svörtu“...
Staðreyndin reyndist önnur þegar ég kannaði þetta töfralyf sem slíkt:
 
Viagra ætti án undantekninga að vera ávísað af lækni. En meira en 20 milljónir manna um allan heim, nota lyfið við risvandamálum. Mikilvægt mun vera að læra hvernig nota á lyfið á réttan hátt. Og er þá helst miðað við líkamlega sem og andlega heilsu, ásamt góðu sambandi við makann. En slíkt hefur úrslitavald um hvort besta mögulega virkni náist.
 
Viagra virkar staðbundið á liminn með því að auka blóðstreymi til hans. Aðstæður verða samt að vera réttar, þ.e. karlmenn verða að búa yfir löngun og vera „tilbúnir“ bæði andlega og líkamlega í „slaginn“.
 
Löngun og kynörvun verður að vera til staðar ef lyfið á að virka. Aðeins manneskjan sjálf (ekki pillan) getur framkallað þetta, þar sem Viagra er ekki töframeðal. Lyfið eitt og sér tekur tíma að hafa áhrif.
 
Aukaverkanir geta gert vart við sig á formi roða í andliti og á bringu og vægrar ógleði. Sumir fá jafnvel höfuðverk. Yfirleitt líður þetta fljótt hjá.
 
Réttur undirbúningur er fyrir öllu; báðir aðilar verða að vera afslappaðir og rólegir. Búið ykkur undir jákvæða og neikvæða upplifun. Ef um fyrsta skipti er að ræða, er næsta víst að hlutaðeigendur séu örlítið taugaóstyrkir. Munið að æfingin skapar meistarann. Skapið góða stemmingu og umfram allt talið saman.
 
Best er að taka Viagra á fastandi maga. Gott er að taka töflu hálftíma fyrir kynmök, með glasi af vatni. Ef Viagra er tekið með stórri feitri máltíð, er rétt að taka töfluna fyrr eða um 60-90 mínútum fyrir kynmök.
 
Góðir lífshættir auka án efa farsæld í kynlífi. Hugsaðu um vellíðan þína og borðaðu hollan og góðan mat. Auk þess er gott að hreyfa sig reglulega og drekka mikið af vatni. Forðast skal reykingar.
 
30-40% karlmanna á sextugsaldri eiga við risvandamál að stríða. Í mismiklum mæli þó. Flestir geta sótt sér hjálp í dag.
 
Njótið lífsins. Kynlíf er mikilvægur hluti tilverunnar...allra best ef þið eruð ástfangin.
 
heida@spegill.is