Með gæludýr í klofinu, lítil brjóst og annar alltof feitur...


Þau eru eins ólík og þau eru lík þessi börn mín tvö. Eitt sem þau eiga sammerkt er að þau eru bæði heiðarleg, einlæg, hreinskilin og yfirnáttúrulega skemmtileg og falleg, auðvitað.  
 
Bara eins og flest öll önnur börn. Töluverður aldursmunur er á þeim eða 15 ár.
Spólum aðeins tilbaka.
 
Ég var stödd í biðröð á McDonalds á Nýja Sjálandi með syni mínum. Hann var 5 eða 6 ára. Hann var jafnvígur á ensku og íslensku og beit það í sig á einhverju tímabili að tala bara ensku.
 
Sem stundum kom sér frekar illa...
 
Við stóðum í röðinni. Barninu hafði að sjálfsögðu verið innprentað að segja alltaf satt og rétt frá, ljótt væri að skrökva og allur sá pakki.
 
Sem einmitt stundum kom sér frekar illa...
 
Hann fór að ókyrrast í röðinni, enda röðin löng og sólin heit. Áður en ég vissi af var hann byrjaður að pota í manninn sem stóð fyrir framan okkur og segir grafalvarlegur um leið og hann horfir upp í svaðalegan frumbyggja eða Maori, en þeir eru yfirleitt stórir og miklir, margir með tattó í andlitinu:
 
-Hey, þú ert greinilega búin að borða allt of mikið af hamborgurum. Þú ert svo feitur. (benti á bumbu karlsins) Megum við mamma ekki bara fara fram fyrir þig? Ha?
 
Litli ljóshærði strákurinn minn með stóru bláu augun benti á mig, sem langaði helst að hverfa, með húð, naglalakki og hári að ógleymdu öllu hinu. Ég baðst afsökunar, en það gerði bara illt verra. Maðurinn var ekki hress. Bara alls ekki. Hann var BRJÁLAÐUR!
 
Spólum svo áfram.
 
Ég fór með stelpuna mína í Bláa lónið, einu sinni sem oftar. Í sturtunni fyrir baðferðina varð hún frekar skrítin þegar hún fer að skoða sig um. En hún talaöi hvorki né skildi ensku, enda bara fjögurra ára gömul.
 
Sem stundum kom sér afar vel...
 
Hún var eitthvað að væflast í sturtuklefanum á meðan ég var að þvo mér og þegar ég opnaði augun og rak augun í hana þar sem hún stóð fyrir framan erlenda konu (þýska) og bendir á klofið á henni og segir um leið og hún grettir sig:
 
-Oj, þetta er ógeðslegt. Hvað er þetta?
 
Konan brosti til mín og spyr?
 
-Hvað er hún segja?
 
Og hvað gat ég sagt? Hún er að spyrja hvort þú sért með gæludýr í klofinu?
 
Nei aldeilis ekki, auðvitað þóttist ég bara ekki skilja hana. Yppti bara öxlum, brosti og labbaði í burtu.
 
...í heita pottinum stuttu síðar gerðist annað óendanlega neyðarlegt atvik þegar hún vindur sér upp að konu á miðjum aldri og spyr:
 
-Ert þú fullorðin?
 
Konan hlær og svaraði:
 
-Jú jú, það er víst.  Af hverju spyrðu?
 
-Þú ert með svo lítil brjóst...
 
Flest kennum við börnum okkar að segja satt og rétt frá. Ljótt sé að ljúga. Meiða aðra. Stríða. Bannað að stela. En hún er nú svolítið vandmeðfarin þessi lína. Hvað passar að segja við hvern og af hverju...og af hverju ekki....osfrv.
 
Eftir stutta tölu þarna í denn eftir nefndar uppákomur, þá er allt útlit fyrir að þessi tvö börn mín komi til með að plumma sig alveg hreint ágætlega í framtíðinni.
 
Og fyrir það er ég þakklát.
 
 
 
 
Fylgstu með okkur á Facebook!