Töfraljós - Lífið er of stutt til að kveikja á kertum sem ilma ekki!


Helga Auðunsdóttir starfaði áður sem bóndi en stofnaði Töfraljós árið 2000. Síðan þá hefur hún unnið til verðlauna í Bandaríkjunum. En það var þegar Helga hafði unnið að formúlunni sem hún notar í kertin sín í 2 ár. Fyrir 12 árum.
 
Síðan þá hafa kertin verið í stöðugri þróun en þau fengu verðlaun fyrir hversu vel þau brunnu (eða entust) og hversu vel ilmurinn hélt sér. Ekki amaleg umsögn það. Við spjölluðum Helgu í framhaldi af því að undirrituð vann hvorki meira né minna en kerti á Facebook leik á dögunum. Þvílík hamingja! Ég er tryllt í þessi kerti, svo tryllt að ég gæti étið þau með rjóma. En jú, ég fékk 2 stk. Takk fyrir! 
 
Er mikill náttúru- og dýraunnandi
 
“Ég er uppalin Reykvíkingur og ólst upp í Hlíðunum til 9 ára aldurs og er ég því Valsari af guðs náð. Eftir það flutti ég í Fossvoginn. Ég er búfræðingur að mennt og útskrifaðist frá Hvanneyri 1979, starfandi sem bóndi á Suðurlandi fyrst í Hrunamannahreppi og síðar í Villingaholtshreppi frá þeim tíma, til ársins 1997.
 
Það þótti mér gefandi og fjölbreytt starf. Ég er mikil dýravinur og í dag er ég með 3 hunda á heimilinu, get ekki verið án þess að hafa dýr nálægt mér. Það er ákveðin nánd sem dýrin gefa mér við náttúruna, sem ég sakna frá því að ég starfaði sem bóndi." Segir Helga.
 
 
Fallegt og töff og ekkert þeirra getur mögulega orðið annað ein einstakt
 
 
Aflaði sér menntunar hjá þeim bestu í Bandaríkjunum
 
“Á þessum tíma eignaðist ég 5 yndisleg börn sem eru flest flogin að heiman nema sá yngsti sem er í fjölbrautaskóla. Þegar ég flutti á mölina þá var ekki séns að ég færi að vinna frá þessum elskum, svo ég ákvað að reyna fyrir mér í ýmsu handverki.  Ég var full fljót á mér í ullinni og hafði lítið upp úr því krafsi nema útgjöld.
 
En svo snéri ég mér að því að læra meira um ilmkertagerð og leitaði þangað sem bestu ilmkertin af mínu mati eru í Bandaríkjunum.
 
Þar fékk ég að kynnast konum sem starfa eins og ég heima við að gera kerti, og sá að þetta var ekkert galin hugmynd og hentað mér vel því að hafa vinnuna við hliðina á mér var eitthvað sem ég þekkti vel."
 
 
Takið eftir fallegum nafnagiftum - við öll tilefni
 
 
Þær eru "nefin" mín
 
“Hugmyndin af nafninu Töfraljós kom útfrá því að þær sem ég kynntist erlendis kölluð kertin mín Magical candles, þær dáðust oft að litavali mínu í kertunum og hversu djörf ég er að nota sterka liti.
 
Ég er í góðum samböndum við þær og með því get ég fylgst vel með því sem er að gerast í heimi ilmanna sem ég nota.  Þær eru nefnilega nefin mín þannig að ég þarf ekki endilega að fara til Bandaríkjanna heldur gefa þær mér upp hvað er í gangi í nýjustu ilmunum og hvort það komi til að henta mér í minni framleiðslu."
 
 
Dásemd fyrir fermingarnar í vor
 
 
Lærði að endurmeta líf mitt upp á nýtt
 
“Ég varð fyrir áfalli sem breytti lífi mínu mikið. Ég lamaðist í nóvember árið 2006 af sjúkdóm, sem heitir "Guillain-Barré syndrome”.
 
Ég komst loksins heim til mín í júní 2007 þá í göngugrind. Ég var heppin að komast á fætur aftur,  en á þessum tíma stjórnaði ég kertagerðinni með harði hendi í gegnum síma, en þetta er saga út af fyrir sig.  Ég lærði að meta lífið mitt á annan hátt og þakka fyrir hvern dag því hann er ekki eins sjálfsagður og okkur flestum finnst."
 
Helga lærði að meta líf sitt á annan hátt eftir erfið veikindi og þakkar fyrir hvern dag, því hann er ekki eins sjálfsagður og okkur flestum finnst
 
 
 
Bíður einnig upp á reykelsi og ilmúða fyrir heimili og dýr
 
"Samhliða því að bjóða upp á kertin mín,  hef ég verið með reykelsi sem eru með sama ilm og kertin. Einnig heimilisilm, sem hefur verið að koma sterkur inn á síðasta ári, hann endist afar vel.
 
Svo er ég með ilmsprey (Fríski) sem er mjög vinsælt og það er notað t.d. til að spreyja í bæli hjá dýrum, í gardínur og á húsgögn og ekki síst í bíla, allt er þetta með sömu ilmum og kertin."
 
 
Sjávardraumur í nokkrum gerðum
 
 
 
Notar hágæðaefni í kertin sín
 
"Ég nota hágæða parafin vax í kubbakertin mín og hágæða ilmolíur, síðan er ég oft með hliðarverkefni sem er að fylla á glös fyrir hin ýmsu fyrirtæki en í þeim er hágæða soyjavax. Svo er allur kveikur hjá mér samþykktur af Bandarísku neytendastofunni.
 
Í ilmkertunum er hellings vinna, ég bræði vax og set á plötur og síðan er það allt skorið niður í litla bita, þessir bitar eru svo settir í form og yfir er hellt vaxi sem hefur verið blandað með ilmolíu, svo þurfa þau að standa í ákveðin tíma áður en hægt er að kveikja á þeim. Góð ilmkerti eru eins og gæða vín, verða betri með árunum."
 
 
Töff - tríó
 
 
Fylgist með íslenskum hönnuðum
 
"Ég hef alltaf annað augað með íslenskum hönnuðum og hef gaman af fjölbreytileikanum sem ég sé. Sérstaklega finnst mér gaman að sjá að húsganasmíði er að koma sterkt inn, grein sem var nær útdauð hér en við höfum svo flotta listasmiði í þessum geira.
 
Svo finnst mér gaman af fatahönnuninni, hún heillar mig alltaf. Einnig öll skartgripasmíðin sem er í gangi.
 
Sjálf dunda ég mér við það þegar tími gefst til og langar alltaf að fara og læra silfursmíði. Kannski geri ég það einn daginn. En ég er alæta á allt sem gleður augað og get gleymt mér í að skoða flottar hönnunarsíður." Segir hún. 
 
 
Kertaluktir
 
 
Veljum íslenskt!
 
"Ég er bjartsýn á framtíðina. Ég hef fundið fyrir meiri áhuga á innlendri framleiðslu og það gefur okkur framleiðendum hér á landi ástæðu til að vera bjartsýn. Einkunnarorðin á mínu heimilinu er:  "Veljum íslenskt".  Ef við íslendingar temdum okkur að hugsa svona þá kæmum við hagvextinum hraðar af stað, þannig sköpuðum við fleiri störf í landinu.
 
Hægt er að fá hjá okkur ilmi sem hæfa hverri árstíð, einnig er hægt að panta ilmi með sérstökum lit. Ef liturinn sem er á ilmnum hentar ekki inn í litaþemað á heimilinu eða fyrirtækinu sem dæmi.
 
Einkunnarorðin hjá Töfraljósum eru: Lífið er of stutt til að kveikja á kertum sem ilma ekki." Segir þessa flotta kona að lokum og óskum við henni velfarnaðar í framtíðinni.
 
 
Þessi myndu henta vel með ilmandi morgunkaffinu
 
 
 
Hér má skoða heimasíðu Töfraljóss og hér er Facebook síðan.
 
Hvetjum ykkur til að skoða þessi himnesku kerti og minnum á að ilmkerti eru ekki það sama og ilmkerti - gæðin eru afar mismunandi.
 
Það vitum við á Speglinum sem elskum kerti og ekki síst ilmandi kerti!