Sortuæxli -dauðans alvara!


Sortuæxli er hættulegasta gerð húðkrabba. Húðkrabbamein getur leitt til dauða, en tíðni sortuæxla hefur margfaldast á síðustu tuttugu árum. Lykilatriðið mun vera að greina snemma, þá er það læknanlegt með skurðaðgerð.
 
Árlega deyja u.þ.b. fimm manns á Íslandi sökum sortuæxla.
 
En hvernig lítur sortuæxli út?
 
Sortuæxli myndast frá litafrumum húðarinnar og eru oftast dökkir litaðir blettir. Þau geta þó verið misdökk, allt frá því að vera ljósbrún yfir í að vera svört eða blásvört. Einstöku sinnum eru sortuæxli litlaus eða rauðir blettir. Oft eru blettirnir mislitir, óreglulegir í lögun og/eða með skörðótta brún.
 
Þau geta myndast í húð hvar sem er á líkamanum, en algengust eru þau á fótleggjum hjá konum en á baki hjá karlmönnum.
 
Æxlin birtast allt í einu sem nýr blettur, eða í/við fæðingarbletti. Þess vegna er mikilvægt að fylgjast með útliti fæðingarbletta reglulega, þannig að eftir breytingum á þeim verði tekið.
 
Einkenni sortuæxla:
 
 Ósamhverf (annar helmingurinn ekki spegilmynd hins)
 
 
 
 
 Skörðóttir og ógreinilegir jaðrar
 
 
 
 
Mislit (frá ljósbrúnu í dökkbrúnt eða svart)
 
 
 
Stærri en 6 millimetrar í þvermál
 
 
 
 
Eru einhver einkenni sem fylgja sortuæxli (Melanoma)?
 
Sortuæxli eru oftast einkennalaus, stöku sinnum gera þau vart við sig með kláða í blettinum, eymslum eða blæðingu.
 
Hve margir fá sortuæxli?
 
Tíðnin hefur margfaldast á síðustu 20 árum.
 
Talið er að aukin sóldýrkun þ.m.t. sólarlandafrí og ljósabekkjanotkun skipti hér verulegu máli.
 
Árlega greinast u.þ.b. 30 sortuæxli og 30 forstigs sortuæxli á Íslandi.
 
Sortuæxli er sjöunda algengasta tegund krabbameina hjá konum og tólfta hjá körlum.
 
Sortuæxli er algengasta krabbamein sem konur á aldrinum 20-35 ára fá. U.þ.b. helmingur allra sem fá sortuæxli er undir fimmtugu en sortuæxli eru mjög sjaldgæf hjá börnum.
 
Hvað orsakar sortuæxli?
 
Eins og með hin húðkrabbameinin er óhófleg sól mikilvægasti orsakaþáttur sortuæxla. Sólbrunar auka hættuna verulega, sérstaklega ef börn eða unglingar brenna.
 
Erfðir skipta líka máli. Til eru fjölskyldur þar sem tíðnin er greinilega hærri en gengur og gerist.
 
Hverjir fá sortuæxli?
 
Hver sem er getur fengið sortuæxli. Þeir sem eru með ljósa húð eru í mestri áhættu.
 
Aðrir þættir sem auka áhættuna:
 
Margir fæðingarblettir eða óreglulegir fæðingarblettir.
 
Ef foreldrar, börn eða systkini hafa fengið sortuæxli.
 
Rauðhærðum og ljóshærðum er tvö- til fjórfalt hættara við að fá sortuæxli en öðrum.
 
Mikil sól á fyrstu 20 árum ævinnar margfalda (x3) áhættuna á sortuæxli.
 
Meðferð og horfur:
 
Þegar sortuæxli greinist snemma og æxlið er þunnt (vaxið mjög grunnt ofan í húðina), er hægt að lækna sjúkdóminn með skurðaðgerð.
 
Það skiptir meginmáli að greina sortuæxli snemma, það eru bein tengsl á milli þykktar sortuæxlis í húð og lífshorfa.
 
Ef æxlið hefur sáð sér í önnur líffæri er meðhöndlað með krabbameinslyfjum, ónæmismeðferðum eða geislum.
 
Bólusetningarmeðferð og rannsóknir á erfðum sjúkdómsins eru helsta von læknavísindanna um nýja meðferð á næstu árum.
 
 
Heimild: landlæknisembættið
 
heida@spegill.is