Engiferdrykkur með ENGRI fyrirhöfn - að innan og utan skal tekið í GEGN!


Þessi ótrúlega einfaldi engiferdrykkur er einfaldlega geggjaður. Fyrir mig persónulega hefur hann haft margvísleg og góð áhrif.
 
Góð og hreinsandi áhrif á húðina og svo losar hann vatn og hindrar þannig bjúgmyndun.
 
Ég þjáðist af kvefi alla daga...ok þjáðist kannski ekki, en það er þrúgandi að vera alltaf og sífellt „horaður“. Ef ég fæ mér einn bolla með morgunbústinu daglega, þá losna ég algjörlega við þann hvimleiða fjanda.
Það eina sem til þarf er:
 
1 líter vatn
2 stk vænir „bitar“ af engiferrót
1 sítróna
1 msk hunang
 
Þú einfaldlega dúndrar vatninu í pott. Skerð engiferrótina í sneiðar, kubba eða bita. Hjörtu jafnvel ef sköpunarþráin er að drepa þig. Fleygir út í vatnið með húð, hári og öllu draslinu. Skerð sítrónuna í sneiðar og smellir út í bullandi blönduna.
 
Rétt eftir að suðan kemur upp potarðu einni skeið af hunangi út í. Sýður svo saman í 15 - 20 mínútur. Áður en þú skellir lokinu á pottinn og lætur kólna vel er tilvalið að skella eggi á andlitið til að  fríska aðeins upp á sig.
 
Að innan sem utan, skal tekið í gegn. 
 
Þegar engiferdrykkurinn er orðinn vel kaldur, sigtarðu aukadótið frá og tappar síðan vökvanum á brúsa með loki (eða flösku). Geymdu í ísskáp.
 
Hægt er að bæta út í þetta t.d. hvítlauksrifjum. Á hverjum morgni drekk ég rétt rúmlega hálfan bolla. Prófaðu; eftir aðeins nokkra daga finnurðu undraverðan mun.
 
Ég lofa.