Erum við fær um að elska meira og hata minna?


Hvað er að frétta svona fyrir utan það sem er að frétta? Frábært. Góð/ur? Ennþá betra.
 
Ég? Mig langar nú eiginlega stundum til að æla upp í sjálfa mig. Annars góð. Af hverju?
 
Ég veit ekki alveg hvað mér á að finnast um hvert þetta samfélag er að fara, ég segi það satt. Ef ég tek vegginn minn á Facebókinni sem dæmi, þá er hann stundum útataður slori - mitt á milli kærleikskorna sem nánast fölna í samanburði...  
 
Afskræmdar myndir með miður fyndnum texta með tvíbendum skilaboðum af manni í ábyrgðarstöðu...
 
Á að jarða manninn lifandi? Er þetta ekki orðið gott?  Tja, hann verður þá ekki sá fyrsti...
 
Ung stúlka lést. Fólk er orðlaust og slegið. Söknuður óbærilegur hjá hennar nánustu. Dauðinn er jú eini hluturinn sem þú gengur að vísum í þessu lífi. En vá, þetta er svo sorglegt í mínum huga, að orð ná ekki utan um það...
 
Fólk er heimilislaust. Ein ung og einstæð dama í Hafnarfirði á hvorki fyrir mat eða klósettpappír, hún biðlar til Facebook vina sína um hjálp. Segist aldrei hafa verið í óreglu, hún nái einfaldlega ekki endum saman...
 
Leikur - viltu vinna? - Deildu og lækaðu og svo framvegis...
 
...lærðu að mála á þér andlitið (ég mæli með YouTube) - Fáðu þér hrukkubana, þannig að þú sért (kannski) gjaldgengur inn í dansinn sem þetta yfirborðskennda samfélag hefur upp á að bjóða.  
 
Farðu svo í kirkju, þú ert ekki maður með mönnum nema þú lofsyngir guð og alla hans heilögu anda í hópi annarra manna. Minnst vikulega. Þú nærð aldrei sálarfrið nema fá aðstoð ... í rétta umhverfinu. Í kirkju sem kostar þjóðfélagið drjúgan skildinginn. Kjaftæði!
 
Ég hvet þig til að fara í göngutúr, ein/n - hugleiddu - ræktaðu þína trú í einrúmi. Þinn innri mann. Þetta er persónuleg reynsla. Vertu í þögn með sjálfum þér og hlustaðu á þina innri rödd. Þannig nærðu frið - sálarfrið. Horfðu á náttúruna í kringum þig og lærðu að meta hana.
 
Í félagi við sjálfan þig munu réttu svörin birtast þér. Réttu svörin fyrir þig. Ef það sem þú þráir er eitthvað sem þú ein/n "græðir" á. Verði þér að góðu. Nei, verði þér að vind og skít.  
 
En fyrir alla muni, ekki láta aðra mata þig. Mundu bara, það er enginn að fara að bjarga þér nema þú sjálf/ur. 
 
Ein vinkona mín berst hetjulega við krabbamein á LSH - hún óskar þess heitast að komast heim í tíma, þannig að hún nái að skreyta heimili sitt fyrir jólin...
 
Hún er ekki á heimleið...hver er þín heitasta ósk?
 
...múgurinn heldur áfram að væla. Og að drulla yfir mann og annan. Ég er ekki að vísa í skoðanaskipti hér. Ég er að tala um skítafílu! Drulluslag. Og væl. Og enn meiri skít. 
 
Ég get ekki varist þeirri hugsun að hátíð ljóss og friðar er handan við hornið.
 
Hvernig lýst þér á að taka forskot á sæluna og eyða orkunni í eitthvað uppbyggilegt, einsog að sýna samstöðu til þeirra sem minnst mega sín? Þeim sem eiga um sárt að binda?
 
Er ekki málið að sína meiri kærleika, umburðarlyndi og setja fram skoðanir sínar á uppbyggilegan hátt? Þurfum við að hafa skoðanir á öllum fjandanum? Þurfum við að vera svona dómhörð? 
 
Ég hitti tvo erlenda fjárfesta fyrir nokkrum dögum. Þeir dásömuðu land og þjóð og alla íbúa meir en ég taldi okkur eiga skilið. Hreina loftið og vatnið, kraftinn sem býr í okkur, kurteisina - allir svo hjálplegir. 
 
-Takk, sagði ég og brosti mínu breiðasta. En veistu hvað ég hugsaði?
 
 
 
"Sum fræ ná aldrei að springa út...
 
...sum fræ fljúga með vindinum...sum með sjónum, enn önnur með svifvængjum langt langt frá móðurtrénu...og einhver þeirra berast með fuglum. Sum fræ vaxa villt og önnur þrífast best við dimm birtuskilyrði.
 
Þegar ég horfi á fræið mitt...
 
...ímynda mér að ég sé í raun að horfa á heilan frumskó...
...fræið mitt dafnar best undir sólinni... 
 
Hvar dafnar þitt fræ best?"
 
 
 
Erum við fær um að elska meira og hata minna?
 
Það er ekkert annaðhvort eða í þessum efnum. Annað hvort ertu að verða betri eða verri manneskja....
 
Góðar stundir.