Kostir vaxmeðferða


Eitt af því sem fylgir tískubylgjunni nú til dags eru vaxmeðferðir. 
 
Kostir við vaxmeðferðir eru tvímælalaust þeir að hárin eru lengur að vaxa upp og verða ekki eins hörð. Þú færð ekki „brodda“ nánast daginn eftir eins og þegar þú rakar þig eða notar háreyðingarkrem. Hárin geta þó komið ljósari til baka, en þau geta líka orðið dekkri. 
 
Á móti kemur að vaxmeðferðirnar eru dýrar, oftast sársaukafullar, þú getur fengið inngróin hár (reyndar með rakstri líka) og þú þarft að vera með ákveðna lengd á hárum til þess að vaxið nái hárunum. Það eru ekki allar konur sem þola að safna aðeins.
 
En síðan vita margir ekki hvað á að gera fyrir og rétt eftir vaxmeðferðir og hvernig á að meðhöndla það svæði sem var vaxað.
 
Fyrir vaxmeðferð skaltu passa að húðin þín sé ekki viðkvæm, sólbrennd eða sköðuð á einhvern hátt.
 
Eftir vaxmeðferð máttu ekki fara í sturtu, heitt bað, sund eða gufu í lágmark 12 tíma en best væri að bíða 24 tíma, jafnvel lengur, því lengur því betra. Húðin er opin og viðkvæm fyrir sýkingum (já þetta á líka við vax á augabrúnum!) og ekki voga þér að skella þér á sveitta æfingu! ;o)
 
Helst ekki að setja neitt krem á meðhöndlað svæði nema það sé Aloe vera, rakakrem með engum ilmefnum eða krem sem er sérstaklega gert fyrir eftir vax meðhöndlun. Farði sem er ekki steinefnafarði er ekki vinsæll heldur.
 
Þegar húðin er búin að jafna sig er gott að skrúbba húðina einu sinni til tvisvar í viku til að koma í veg fyrir inngróin hár og nota krem sem hægir á hárvextinum og hjálpar til við að vinna gegn inngróum hárvexti.
 
Inngróin hár koma af því að húðfrumurnar safnast upp á húðinni og loka þannig fyrir hársekkinn, með þeim afleiðingum að hárið nær ekki að vaxa upp. Ef þú sérð hár undir húðinni, er gott að ná því út, taka það með t.d plokkara.
 
Ég hvet alla mína kúnna til að fara eftir þessum einföldum ráðum, eftir vaxmeðferð. Því miður eru ekki allir sem fylgja þeim. Þannig að ég ætla að vona að þið hafið lært eitthvað af þessu.
 
Hugsið vel um húðina ykkar, hún verður með ykkur alla ævi hvort sem ykkur líkar betur eða verr.