Þarmaskolunaraðferðin - nú skal hreinsa út allan óþverra!


Jæja gott fólk, allir búnir að borða vel af óhollustu undanfarið, komin tími á örlitla heinsun kannski...ekki ég -en þú mátt.
 
Nappaði þessum flottu upplýsingum sérstaklega handa þér. Þú mátt eiga þær, gjörðu svo vel. En það er bannað að skila. 
 
 
Þarmaskolunaraðferðin
 
Með því að drekka heitt og léttsaltað vatn og gera fjórar auðveldar líkamsæfingar er meltingarvegurinn skolaður frá munni til endaþarms. Á mildan hátt fá maginn og þarmarnir fullkomna hreinsun og hvíld. Í tíu daga á eftir er mataræðið einfalt og létt grænmetisfæði. Það eru ekki bara þarmarnir og líffærin sem hreinsast og endurnærast, heldur allur líkaminn og starfsemi hans. Maður uppgötvar að líkami og hugur eru í innbyrðis tengslum, hlutar af sömu heild. Úrgangs- og eiturefni og spennuástönd hverfa. Öll skynfærin skerpast og maður verður léttari á sér -almenn vellíðan segir til sín.
 
Með hatha yoga hreinsunaraðferðunum er hægt að koma í veg fyrir myndun ýmissa kvilla -og ef skaðinn er skeður geta þær bætt heilsufarið. Aðferðirnar eru meðal annars notaðar við streitu, ofnæmi, astma, höfuðverk, sykursýki og maga-, þarma- og meltingartruflunum.
 
Það er gott að gera þarmaskolun einu sinni eða tvisvar á ári og þá undir handleiðslu jógakennara sem sjálf/ur hefur reynslu af aðferðinni og gerþekkir hana. Best er að gera það í hópi. Það myndast góður andi og í því er stuðningur.
 
Daginn áður
 
Þú borðar venjulegan hádegismat, en um kvöldmatarleytið færðu þér bara einn eð tvo ávexti og vatn eða jurtate. Ef þú drekkur kaffi eða svart te þá er best að hætta 5-6 dögum fyrir skolunina. Eða trappa niður hægt og rólega ef þú drekkur mikið. Mundu að kaupa inn grænmeti fyrir helgina.
 
Þarmaskolunardagurinn
 
Þú mætir að morgni dags á fastandi maga. Kennarinn útskýrir aðferðina og svo byrjum við. Þú drekkur fullt glas af heitu léttsöltuðu vatni. Síðan gerirðu fimm líkamsæfingar. Saltið og æfingarnar gera það að verkum að vatnið rennur fljótt í gegnum meltingarveginn. Þú færð annað vatnsglas og gerir æfingarnar, þriðja glasið og æfingar o.s.frv. Þó að þörfin fyrir að fara á klósettið komi fyrr, reyndu þá að bíða þangað til eftir sjötta glasið og æfingar. Eftir það ferðu á klósettið eftir hvert glas og æfingar. Þannig heldurðu áfram þangað til að það sem kemur út um endaþarminn er jafn tært og vatnið sem þú drekkur. Þú drekkur minnst 16 glös (4 lítra), en sumir þurfa aðeins meir. Vatnið rennur beint í gegnum þarmana. Það fer ekki í gegnum nýrun vegna þess að saltupplausnin er sú sama sem er í líkamsvökvanum.
 
Þegar þarmarnir eru orðnir hreinir skolarðu magasekkinn með volgu saltvatni. Þú drekkur u.þ.b. einn og hálfan líter í einum teig og kastar því upp strax á eftir. Eftir magaskolunina gerirðu æfingarnar fimm í síðasta skipti og skolar síðan nefið með sérstakri nefskolunarkönnu. Síðan leggurðu þig og hvílir í 45 mínútur. Þar á eftir færðu þarmaskolunarmáltíðina; hrísgrjón með hreinsuðu smjöri. Smjörið smyr og verndar þarmana og grjónin setja starfsemi þeirra í gang.
 
Taktu því með ró það sem eftir er dagsins.
 
Mataræðið á eftir
 
Skráðu þig bara á þarmaskolunarnámskeið ef þú hefur í hyggju að halda mataræðið. Á námskeiðinu færðu leiðbeiningar og lista yfir það sem þú mátt borða og hvað þér ber að varast í tíu daga á eftir. Fæðið er mestmegnis soðið/gufusoðið/ofnbakað grænmeti, soðnar kornvörur, baunir og linsubaunir. Lyf eru ekki tekin nema þau séu lífsnauðsynleg. Ef þú átt við sjúkdóm að stríða og ert á lífsnauðsynlegum lyfjum, talaðu þá við leiðbeinandann á námskeiðinu.
 
Eftir tíu daga er fæðið frjálst -en ef þú vilt efla áhrifin af skoluninni og fá meira út úr henni borðaðu þá hvorki kjöt, fisk né egg í 30 daga þar á eftir.